Hvað eiga kvenstjórnendur sameiginlegt og hver eru viðhorf karla til þeirra?

Tvö mjög áhugaverð erindi um kvenstjórnendur þar sem snillingarnir Katrín Pétursdóttir verkefnastjóri hjá Póstinum og Íris Ósk Valþórsdóttir stöðvarstjóri hjá Avis deila visku sinni og stýra umræðum.

Því miður er fullbókað á viðburðinn.  

 

Kvenstjórnendur á íslenskum vinnumarkaði. Hvað eiga þeir sameiginlegt?
Katrín fjallar um rannsókn sem hún gerði á kvenstjórnendum á íslenskum vinnumarkaði. Farið er yfir hvað einkennir persónuleika þeirra, hvernig þær tvinna saman fjölskyldulíf og vinnu, hvaða aðferðir þær nota í stjórnun, tengslanet þeirra og hvaða áhrif það hafði á framgang í starfi, kynjamisrétti og ráð sem þær gefa ungum konum sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum.

Viðhorf íslenskra karla til kvenstjórnenda

Á síðustu árum og áratugum hefur þátttaka kvenna í stjórnunarstörfum verið töluvert í umræðunni og enn í dag heyrast af og til raddir sem segja að konum sé meinaður aðgangur að stjórnunarstörfum eða þær ekki metnar að verðleikum. Í erindi sínu segir Íris frá sinni sýn og vísar í rannsókn sem hún gerði á viðhorfum karla til kvenstjórnenda og stjórnunarhátta þeirra.

Staðsetning viðburðar

Fréttir af viðburðum

Hvað eiga kvenstjórnendur sameiginlegt og hver eru viðhorf karla til þeirra

Hvað eiga kvenstjórnendur sameiginlegt og hver eru viðhorf karla til þeirra var yfirskrift fundar á vegum faghóps um mannauðsstjórnun sem haldinn var hjá Póstinum Stórhöfða í morgun.

Tvö mjög áhugaverð erindi um kvenstjórnendur voru flutt en það voru þær Katrín Pétursdóttir verkefnastjóri hjá Póstinum og Íris Ósk Valþórsdóttir stöðvarstjóri hjá Avis sem deildu visku sinni og stýrðu umræðum.

Katrín fjallaði um rannsókn sem hún gerði á kvenstjórnendum á íslenskum vinnumarkaði.  Hana langaði að vita hvernig árangursríkir kvenstjórnendur á Íslandi stjórnuðu og hitti hún þær og spjallaði við þær. Hún fór yfir hvað einkennir persónuleika þeirra, hvernig þær tvinna saman fjölskyldulíf og vinnu, hvaða aðferðir þær nota í stjórnun, tengslanet þeirra og hvaða áhrif það hafði á framgang í starfi, kynjamisrétti og ráð sem þær gefa ungum konum sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum. Konur gegna síður stöðu æðsta yfirmanns á vinnustöðum.  Sagan segir okkur að karlar hafa setið sem æðsti stjórnandi frá upphafi. Fyrrum forsætisráðherra Kanada Kim Campbell breytti því hvernig hún talaði, hún talaði sem leiðtogi en ekki sem kona.  Hún var því gagnrýnd fyrir það. 

Rannsóknaraðferðin var eigindleg, viðtöl voru tekin við 11 árangursríka kvenstjórnendur á íslenskum vinnumarkaði á aldrinum 40-69 ára forstjórar eða eigendur fyrirtækja. Viðtölin voru 36-75 mínútur.   

Á síðustu árum og áratugum hefur þátttaka kvenna í stjórnunarstörfum verið töluvert í umræðunni og enn í dag heyrast af og til raddir sem segja að konum sé meinaður aðgangur að stjórnunarstörfum eða þær ekki metnar að verðleikum. Í erindi sínu segir Íris frá sinni sýn og vísar í rannsókn sem hún gerði á viðhorfum karla til kvenstjórnenda og stjórnunarhátta þeirra. Persónueinkenni árangursríkra kvenstjórnenda eru að þær eru jákvæðar, bjartsýnar, óþolinmóðar, kröfuharðar og hafa mikinn áhuga á fólki.  Ekkert benti til þess að systkinaröð skipti máli hvort konur skari framúr eða ekki.  Allar konurnar áttu börn og höfðu átt góð og hlý samskipti við foreldra sína.  Þær áttu það einnig sameiginlegt að hafa samviskubit yfir því að inna heimilinu og fjölskyldunni ekki nægilega vel.  Allar höfðu fengið aðstoð heima fyrir.  Flestar höfðu æft einhverjar íþróttir á yngri árum og voru sammála um að hreyfing skipti miklu máli sem og góður svefn. 

Flestir kvenstjórnendurnir voru með skýra stefnumótun, gott upplýsingaflæði, opnar dyr þ.e. auðvelt aðgengi, hlustuðu vel, völdu rétta fólkið með ólíkan bakgrunn, sögðu heiðarleika og traust skipta miklu máli sem og hvatningu og vildu vera þessi ósýnilegi stjórnandi.  Það sem þessir aðilar áttu einnig sameiginlegt var að þær byggðu upp tengslanet í gegnum stjórnarsetu í hagsmunasamtökum, tengslanetið veiti þekkingu.

En hver er upplifun árangursríkra kvenstjórnenda á að vera kvenmaður á vinnumarkaðnum með tilliti til kynjamisréttis?  Margar sögðust ekki finna fyrir misrétti hér á Íslandi en því væri öfugt farið erlendis. Flestar voru hlynntar kynjakóða en fannst að hann ætti samt ekki að þurfa að setja. 

En hvaða ráð gefa þessar konur ungum konum sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum?  Vinnusemi, ánægja í starfi, trúa á sjálfa sig og gefast ekki upp, grípa tækifærin, leita ráða og fá ráleggingar, fá besta fólkið með sér í verkefnin og setja sér markmið. 

Viðhorf íslenskra karla til kvenstjórnenda var rannsókn Írisar Óskar Valþórsdóttur stöðvarstjóra hjá AVIS.  Íris hefur unnið sem stjórnandi sl. 10 ár og var í meistaranámi í stjórnun og stefnumótun.  Íris starfaði 10 ár í Bretlandi þar sem hún var stjórnandi og hefur því reynslu þaðan.  Til fjölda ára hefur verið mikil barátta fyrir jafnrétti.  Konur eru að brjóta sér leið en það tekur tíma.  Það sem var í lagi fyrir 5 árum síðan þykir ekki í lagi í dag.  Konur eru oft fyrir utan ákveðið tengslanet þar sem þær missa af upplýsingum eins og hvað er framundan.  FKA er að hjálpa konum með því að tengja þær saman.  Í gegnum tíðina hafa karlar frekar verið í stjórnunarstörfum.  Í dag eru konur í 47% starfa á Íslandi.  Kynjaskipting í æðstu stjórnunarstöður og stjórnir fyrirtækja á Íslandi eru konur í miklum minnihluta.  Næstum tvöfalt fleiri konur útskrifast úr háskólum á Íslandi í dag en karlar.  Þetta ætti að endurspeglast á vinnustöðum en gerir það ekki.  Kannski er ástæðan sú að það eru töluverðar truflanir hjá konum eins og barneignir o.fl.  Íris Ósk gerði megindlega rannsókn þar sem haft var samband við yfir 30 fyrirtæki og fékk 312 svör frá karlmönnum sem störfuðu fyrir kvenstjórnendur 20 ára og eldri.  64% þeirra sem svöruðu var með núverandi kvenstjórnanda.  Þema rannsóknarinnar: umboð, tilfinningagreind, hvatning, sýn, liðsheild og viðhorf almennt. Kvenstjórnendur eru duglegir við að hvetja aðra við að koma með hugmyndir, sýna starfsmönnum og verkefnum þeirra áhuga, hvetja starfsmenn áfram og vilja að þeim gangi vel.  Þær voru ekki eins góðar varðandi sterka sýn og að deila hugsjónum sýnum en tala jákvætt um framtíðina og það sem framundan er.  Kvenstjórnendur leggja líka metnað í að samskipti séu góð.  Varðandi viðhorf almennt þá voru 80% sammála því að gott væri að vinna fyrir kvenstjórnendur og 90% töldu þær jafn hæfar sem stjórnendur.  Á heildina litið gefur rannsóknin til kynna að það sé jákvæð mynd af kvenstjórnendum, þær sé góðar í að veita umboð til starfsmanna, hafi sterka tilfinningagreind, hvetjandi, með skýra framtíðarsýn og góðar í að byggja upp liðsheild.

 

Eldri viðburðir

Hvernig virkjum við „Viskuvélar“ og aðferðir markþjálfunar á stafrænum Vettvangi vaxtar.

TEAMS linkur hér

Hvernig virkjum við „Viskuvélar“ og aðferðir markþjálfunar á stafrænum Vettvangi vaxtar.   

AI coach FranklinCovey og virkniáskoranir til framfara.

Á fundinum mun Guðrún kynna til leiks snjallan markþjálfa FranklinCovey á Vettvangi vaxtar – svokallaðan „AI coach“  - og leiða hópinn um nokkur dæmi um öflug samtöl.  Um er að ræða snjalla viðbót við þekkingarveitu FranklinCovey á Impact Platform sem styður notendur í fjölda áskoranna og viðfangsefna í dagsins önn.  Æfðu erfið samtöl, fáðu endurgjöf og virkjaðu góðan stuðning og nýja sýn á verkefni dagsins með aðstoð gervigreindar.

Guðrún Högnadóttir, Managing partner FranklinCovey

 

TEAMS linkur hér

Starfsafl býður heim

Lísbet Einarsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Starfsafli býður félagsfólki Stjórnvísis heim, í Hús Atvinnulífsins, til að njóta léttra veitinga og hlýða á erindi þar sem Lísbet mun fjalla vítt og breitt um fræðslu fyrirtækja, mikilvægi fræðslustefnu og áætlunar, ásamt því að svara spurningum úr sal.

 Við hlökkum til að sjá ykkur!

 

Fundarstjóri er Guðrún Finns., stjórnarmeðlimur í faghóp mannauðsstjórnunar.

Aldursstjórnun - Ungar konur með blásið hár og gamlir karlar með litað hár, er eitthvað að marka þetta fólk?

Hlekkur á viðburð: Join the meeting now

 

Aldur er einn af þeim þáttum sem hefur áhrif á viðhorf okkar og viðmót gagnvart öðru fólki. En hvernig er hægt verða meðvitaðri um þessi viðhorf og taka tillit til hækkandi aldurs á vinnumarkaði? 

 

Hvað er aldursstjórnun og hvernig nýtist hún mannauðsfólki? Hvernig birtast aldurs-/öldrunarfordómar og hvaða áhrif hafa þeir? Er gagnlegt að flokka starfsfólk í hópa eftir kynslóðum? Hvað er verið að gera á alþjóðlegum vettvangi í því skyni að sporna við öldrunarfordómum? 

 

Þetta og mögulega fleira tengt öldrun á vinnumarkaði verður til umfjöllunar undir yfirskriftinni "Ungar konur með blásið hár og gamlir karlar með litað hár - er eitthvað að marka þetta fólk?"

Fyrirlesari: Berglind Indriðadóttir er iðjuþjálfi með yfir 20 ára reynslu í öldrunarþjónustu og viðbótarmenntun í opinberri stjórnsýslu, félagsfræði og öldrunarþjónustu. Hún hefur haldið utan um starfsemi Farsællar öldrunar - Þekkingarmiðstöðvar frá árinu 2013 samhliða störfum á hjúkrunarheimilum, heilbrigðisstofnunum og við ráðgjöf og kennslu.

 

Fundarstjóri: Sunna Arnardóttir, formaður faghóps um mannauðsstjórnun.

Kulnun Íslendinga árið 2024

Fyrirlesari

Trausti Haraldsson, framkvæmdastjóri Prósents mun kynna helstu niðurstöður.

Um Rannsóknina
Í ár var bætt við nýjum spurningum til að kanna hvaða starfstengdu þættir gætu verið ástæður streitu og álags, auk þess að skoða hvort að aðrir þættir í lífinu geti haft áhrif.

Frá árinu 2020 hefur Prósent unnið að því að varpa ljósi á kulnun meðal Íslendinga á vinnumarkaði. Með notkun 16 spurninga úr Maslach kulnunarmódelinu (The Maslach Burnout Inventory, MBI) hefur verið unnið að því að greina þetta flókna fyrirbæri. MBI er fyrsta vísindalega þróaða mælikvarðinn fyrir kulnun og er notaður víða um heim. Rannsóknin mælir þrjár mikilvægar víddir: tilfinningalega örmögnun, tortryggni og afköst í starfi.

Hver spurning er greind eftir starfsgrein, starfsaldri, kyni, aldri og menntunarstigi, svo eitthvað sé nefnt.

Prósent hefur framkvæmt þessa rannsókn í janúar ár hvert síðan 2020, og nú eru komin samanburðargögn frá 2020 til 2024 – fimm ára dýrmæt saga sem gefa innsýn á kulnun Íslendinga á vinnumarkaðinum.

Rannsóknin byggir á um 900 svörum frá einstaklingum 18 ára og eldri á vinnumarkaðinum um allt land.

Ekki hika við að hafa samband við okkur fyrir frekari upplýsingar: prosent@prosent.is 

Fjölbreytileiki og inngilding á vinnustöðum

Hlekkur á viðburðinn: Join the meeting now

 

Hjalti Vigfússon, verkefnastjóri hjá Samtökin '78, mun koma og halda stutt erindi um hvernig mannauðsfólk getur hagað vinnuaðstæðum og þjálfað starfsfólk sitt til að gera vinnustaðinn móttækilegri fyrir fjölbreyttum hóp starfsfólks.

Erindið eru 30 mínútur, og verður tími fyrir spurningar að því loknu.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?