ÁTVR Stuðlaháls 2, 110 Reykjavík
Mannauðsstjórnun,
Segja má til að einfalda myndina að öryggismál snúist um að skapa framtíðarsýn og skilgreina mikilvæg markmið auk þess að koma auga á, meta og stýra hættum sem geta komið í veg fyrir að framtíðarsýnin verði að veruleika.
Hluti þeirrar vinnu er m.a. að gera áhættumat, skjalfesta besta og öruggasta verklag og útbúa gátlista þar sem við á. Einnig má nefna að koma upp ferli fyrir frávikaskráningar, skilgreina orsakagreiningaferli og umbótaferli svo fátt eitt sé nefnt. Öll þessi vinna er hins vegar til einskins ef þeir starfsmenn sem útsettir eru fyrir hættum við sína vinnu fylgja ekki skráða verklaginu, skrá ekki frávikin, tileinka sér ekki breytingar í kjölfar úrbóta o.s.frv. Engar framfarir verða einungis frá skrifborðinu. Sá sem vill innleiða breytingar til að auka og bæta öryggisvitund og hegðun þarf að hafa sjálfstraust til að treyst á og nota eigin reynslu til að sannfæra aðra um nauðsyn þess að vinna með breyttum og öruggari hætti. Hann eða hún þarf að virkja stjórnendur og fara út til fólksins og eiga við það samtal. Sýna þarf ákveðni en jafnframt sveigjanleika. Sá sem vill framfarir þarf einnig að átta sig á að beita þarf mismunandi nálgun í samskiptum því fólk er mismunandi og hefur ólíkar væntingar og þarfir. Að virkja stjórnendur og starfsmenn á öllum stigum krefst leiðtogahæfni.
Í kynningu sinni mun Reynir Guðjónsson Dale Carnegie þjálfari og öryggisstjóri OR ræða þessi atriði og nokkrar leiðir sem hægt er að nota til að efla öryggisleiðtoga.