Á þessum fundi faghóps um mannauðsstjórnun sem haldinn var í Verkís var fjallað um mikilvægi þess að starfsfólk innan sömu og þvert á þjónustugreinar tali sama tungumálið, áhrif þess á hæfni starfsfólks, þjónustugæði og orðspor. Tungumálið er ein af undirstöðum árangursríkra samskipta og lykilþáttur þess að þjónustufyrirtæki geti eflt hæfni starfsfólks til að uppfylla þarfir og væntingar viðskiptavina. Eitt er að tala sama tungumálið en það er hinsvegar annað mál ef starfsfólkið leggur ekki sama skilning í þau fagorð og hugtök sem tíðkast að nota innan starfsgreinarinnar. Markmið fundarins var að varpa ljósi á vaxandi vanda innan ferðaþjónustunnar og afrakstur klasasamstarfs samkeppnisaðila innan greinarinnar og hagsmunaaðila um sameiginlega lausn sem getur eflt hæfni starfsfólks og gæði þjónustunnar. Þrír fyrirlesarar fluttu erindi á fundinum:
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri/klasastjóri Íslenska Ferðaklasans sagði markmiðið í gegnum verkefnadrifið samstarf snúa að: nýsköpun, verðmætasköpun, gæði og fagmennsku og betri rekstrarhæfi. Áhersluverkefni Íslenska ferðaklasans eru 1. Ábyrg ferðaþjónusta, 2. Fjárfestingar í ferðaþjónustu og 3. Sérstaða svæða. Ásta fór yfir hve magnað er að sjá hve mikið verður úr þegar unnið er þvert á greinar og er viss um að verkefnið á eftir að nýtast mjög vel í framtíðinni. Gerður var samstarfssamningur við Kompás og ÍF 2016.
Kristín Sif Sigurðardóttir framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Atlantik sagði ákveðin lykilorð notuð í ferðageiranum. Kristín tók fyrir mörg dæmi um lykilorð t.d. þegar pöntuð eru 20 DSU herbergi er átt við 20 Double Single því Bandaríkjamönnum finnst eins manns herbergi of lítil. Því er mikilvægt að eiga orðasafn til að bóka sem dæmi rétta tegund herbergja. Mikilvægt er að allir starfsmenn þekki „lingoið“ tungumálið sem er notað. Þetta auðveldar og flýtir nýliðafræðslunni, vinnslu bókana, eykur sjálfstraust starfsmanna og öryggi og tryggir að gæðakröfur skili sér. Kristín sagði að nú yrði það fastur liður í nýliðafræðslu að kynna fyrir þeim íorðasafn, þau þekki aðgang að orðasafninu og geti leitað í orðabókina án þess að leita víðar í skilgreininguna.
Björgvin Filippusson, stofnandi KOMPÁS Þekkingarsamfélagsins sagði að byrjað var að fá inn fulltrúa frá fyrirtækjum úr ferðaþjónustunni. Yfirlestur fékkst frá háskólunum, hið opinbera kom með ábendingar og hlutverk Kompás var að passa upp á að þar sem verið er að kenna fræðin yrði notað það tungumál sem notað er inn í ferðageiranum. Stofnaður var vinnuhópur, gerð þarfagreining, framkvæmd og útgáfa. Hugtakasafnið þarf að vera sem mest notað, það er lifandi skjal og þarf stöðugt að vera að uppfæra. Eftirfylgnin er því gríðarlega mikilvæg sem og innleiðing á vinnustaði. Hægt er að sækja hugtakasafnið á forsíðu Kompás og ekki þarf að vera innskráður til að hafa aðgengi að skjalinu.