Fyrsti viðburður nýstofnaðs faghóps um jafnlaunastjórnun var haldinn hjá Tollstjóra sem bauð Stjórnvísifélögum heim miðvikudaginn 14. mars kl.14:00. Yfirskrift fundarins var hlutverk og viðhorf æðstu stjórnenda við innleiðingu á Jafnlaunastaðli. Góð mæting var á fundinn. Fyrra erindið flutti Unnur Ýr mannauðsstjóri Tollstjóraembættisins sem jafnframt situr í stjórn faghópsins. Unnur ræddi hve mikilvægt er að viðhorf æðstu stjórnenda sé gott þar sem hlutverk æðstu stjórnenda er stórt í innleiðingu jafnlaunastjórnunar. Sú áskorun sem stjórnendur hafa bent á og stendur upp úr hjá Tollstjóra er að það er erfitt að búa til kerfi sem metur störf rétt. Mikilvægt er að reglulegt endurmat sé á matskerfinu því störf eru breytileg frá einum tíma til annars. Eitt af því sem stjórnendur bentu á er hversu flókið það er að samræma sjónarmið stéttarfélaga. Sum leggja áherslu á mikilvægi menntunar og önnur á að allir fari á lífeyri 65 ára, ólíkir hlutir eru hjá hverju og einu félagi og þegar samið er hjá stéttarfélögum þá riðlast allt til aftur. Tollstjóri hefur hlotið jafnlaunavottun frá Vottun hf og Unnur Ýr, mannauðsstjóri Tollstjóraembættis, fjallar um mikilvægi þátttöku æðstu stjórnenda við innleiðingaferlið. Tollstjóri, Snorri Olsen, tók virkan þátt í ferlinu frá upphafi og er það lykilatriði í að gera ferlið skilvirkt og árangursríkt.
Seinna erindið flutti Anna Þórhallsdóttir sem lauk nýverið MS-prófi í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og gerði eiginlega rannsókn á viðhorfi stjórnenda til Jafnlaunastaðals. Í sínu erindi leitaðist hún við að svara eftirfarandi spurningum: 1. Sjá stjórnendur í íslensku atvinnulífi lögmæti í innleiðingu á jafnlaunastaðli? 2. Hvaða hindranir telja stjórnendur sig standa frammi fyrir við innleiðingu á jafnlaunastaðli og hvaða áhrif telja þeir slíka innleiðingu hafa fyrir skipulagsheildina?
Í lok fundarins kynnti formaður nýstofnaðs faghóps um jafnlaunastjórnun Gyða Björg Sigurðardóttir stjórnina og markmið nýja faghópsins. Síðan var boðið upp á fyrirspurnir.
Fundinum var streymt og má sjá upptökuna á facebooksíðu Stjórnvísi.