Fundurinn var tekinn upp og má nálgast á Facebooksíðu Stjórnvísi.
Glærur má nálgast hér.
Þessi viðburður á vegum faghóps um leiðtogafærni fjallaði um hluttekningu og nánd á tímum fjarlægðar. Áhersla á hluttekningu (e. Compassion), velvild og góð félagsleg tengsl í stjórnun og menningu vinnustaða hefur aldrei verið mikilvægari en nú. Slíkar áherslur geta reynst öflugt mótsvar við álagi , streitu, kulnun og þeim gríðarlegu breytingum sem við stöndum frammi fyrir. Þegar stjórnendur beita þessari tegund af tilfinningagreind og styrkleika, taka eftir fólkinu sínu, upplifun þeirra og sýna einlægan vilja til að gera eitthvað í málunum t.d. þegar á móti blæs getur ávinningurinn verið mikill.
Í þessu erindi var farið yfir hvað hluttekning er, helstu einkenni hennar og ávinning. Þá var skoðað hvað getur staðið í vegi fyrir því að hluttekning nái að þrífast í stjórnun og menningu vinnustaða. Og að lokum hvernig megi vinna með hagnýtum og strategískum hætti með hluttekningu svo að við komumst sífellt nær hinum mannlega vinnustað.
En hvernig gerum við vinnustaðinn manneskjulegri? Ylfa sagði mikilvægt að hver og einn hugsaði með sér hvað nærir okkur sjálf sem manneskjur. Þegar við erum nærð eigum við svo gott með að gefa af okkur. Hluttekning er að sýna fólki áhuga og samkennd, hlusta og huga að. Hluttekning einskorðast ekki við ákveðnar stéttir heldur á hluttekning við alls staðar. Hluttekning er að standa vörð um mannleg réttindi. Mikilvægt er að við séum góð hvort við annað því við vitum aldrei hvað sá sem við hittum er að kljást við. Er í lagi að versta stund dagsins sé sú þegar þú hittir yfirmann þinn eða er í lagi að mánudagurinn sé versti dagur vikunnar? Ylfa sagði mikilvægt að sýna hluttekningu og vera mannlegur. Hluttekning er skilgreind sem næmni á sársauka eða þjáningu. Lífið er upp og niður, gleði og sorg. Ef þú ert á vinnustað þá er mikilvægt að tekið sé eftir hvað vel er gert og að við séum til staðar fyrir hvort annað og getum fagnað saman.
En hvað ýtir undir og hindrar að við notum hluttekningu markvisst? Við höfum öll þennan grunn að sýna hluttekningu. En stundum veljum við að loka á aðstæður. Þegar við sýnum hluttekningu þá erum við meðvitað að sýna tengsl. Við erum ekki alltaf að taka eftir t.d. að bjóða fólki sæti í strætó. Stundum veljum við líka að líta til hliðar.
Það er gríðarlega mikilvægt að huga að því fyrir vinnustaði hvað þeir eru að gera núna. Að fanga árangurssögur er mikilvægt. Einnig er áhugavert að halda fundi og hreinlega allir tjái sig hvernig þeim líður.
Ef við klæðumst eins eða erum í takt þá erum við í takt og samkennd myndast. Rannsóknir Gallup sýna að það sem fólk vill sjá í fari leiðtoga er hluttekning, umhyggja, vinátta og kærleikur. Það sem meira er að það eru jákvæð tengsl á milli fjárhagslegrar afkomu fyrirtækja og leiðtoga sem bera þessa eiginleika. Á vinnustöðum þar sem sýnd er hluttekning er minni kvíði, aukin skuldbinding og starfsmenn eru fljótari að jafna sig.
Ylfa fjallaði að lokum um hagnýtar leiðir fyrir leiðtoga út frá McKinsey skýrslu. Við verðum að byrja á að beina athyglinni að okkur sjálfum og verða meðvituð um okkur þá fyrst sjáum við það sem er að gerast í kringum okkur. Æfa þakklæti og vera í núvitund. Þá fyrst getum við farið að ná fólki saman og skapa „við“. Setja niður varnirnar og sýna auðmýkt.