Loftslagsmál og umhverfismál: Fréttir og pistlar

Aðalfundur loftslagshóps 22. maí

Miðvikudaginn 22. maí 2024 kl. 9.00 var aðalfundur loftslagshóps haldinn á Teams. Fundarstjóri var Guðný Káradóttir formaður faghóps og fundarritari Íris Þórarinsdóttir stjórnarmaður í faghópnum. 

Guðný opnaði fundinn og kynnti dagskrá fundarins: 1.Uppgjör á starfsári 2.  Kosning til stjórnar 3.  Önnur mál. 

Í uppgjör starfsársins sagði Guðný frá hlutverki og starfi hópsins á árinu en nú eru 248 meðlimir í hópnum. Haldnir voru fjórir viðburðir auk aðalfundar, sumir í samstarfi við aðra hópa og einn í samstarfi við gæðastjóra í bygginga- og mannvirkjagerð innan SI. Upptökur af fundum eru birtar á Facebook síðu Stjórnvísis. 

  • 14. september -  Er áhættustjórnun - lífsnauðsynleg aðferðafræði fyrir allar skipulagsheildir?
  • 9. október –  Vísindaleg viðmið fyrir loftslagsmarkmið fyrirtækja - SBTi
  • 17. janúar – Svansvottaðar framkvæmdir – reynsla verktaka
  • 17. maí – Hverju skilar vottun skipulagsheilda með ISO stjórnunarkerfisstöðlum og í hverju liggur  ávinningurinn?

Stjórnarkjör:

Fráfarandi stjórn er þannig skipuð:

  • Guðný Káradóttir, VSÓ ráðgjöf, formaður – hættir í stjórn 
  • Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, Umhverfis,- orku- og loftslagsráðuneytið – situr áfram í
  • stjórn 
  • Ásgeir Valur Einarsson, Iðan fræðusetur – situr áfram í stjórn
  • Gná Guðjónsdóttir, Versa vottun – hættir í stjórn
  • Ingibjörg Karlsdóttir, FlyPlay – hættir í stjórn
  • Íris Þórarinsdóttir, Reitir fasteignafélag – hættir í stjórn
  • Katrín Georgsdóttir, Elding hvalaskoðun – hættir í stjórn
  • Jennifer Lynn Schwalbenberg, lögfræðingur  – situr áfram í stjórn
  • Leó Sigursson, Örugg verkfræðistofa – situr áfram í stjórn 
  • Rannveig Anna Guicharnaud, Deloitte – situr áfram í stjórn 

Formaður og þrír stjórnarmenn ganga nú úr stjórn; Guðný Káradóttir, Gná Guðjónsdóttir, Katrín Georgsdóttir og Íris Þórarinsdóttir.

Eitt nýtt framboð barst í stjórn, Grace Achieng, og Leó Sigurðsson bauð sig fram sem formann. Þau voru kosin. Ný stjórn er þannig skipuð:

  • Leó Sigursson, Örugg verkfræðistofa, formaður
  • Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, Umhverfis,- orku- og loftslagsráðuneytið  
  • Ásgeir Valur Einarsson, Iðan fræðusetur 
  • Grace Achieng, Gracelandic ehf.
  • Jennifer Lynn Schwalbenberg, lögfræðingur 
  • Rannveig Anna Guicharnaud, Deloitte 

Guðný óskaði nýrri stjórn velfarnaðar á nýju starfsári og birti lista yfir tillögur að efni funda sem fráfarandi stjórn hafði sett niður á blað og ný stjórn getur unnið áfram með ef vill.

Undir önnur mál: Leó þakkaði Guðnýju fyrir hennar störf og þakkar traustið semnýr formaður. Ákveðið að ný og fráfarandi stjórn hittist fljótlega. Einnig rætt um áhuga á samstarfi loftslagshóps og hóps um sjálfbærni.  

 

Loftslagsmarkmið: vegferð byggð á vísindalegri nálgun

Á viðburði loftslagshóps þann 9. október sl. var fjallað um hvernig fyrirtæki geti nýtt sér vísindaleg viðmið Science Based Targets initiative (SBTi) við að setja sér loftslagsmarkmið og vinna með vísindalegri nálgun að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við markmið Parísarsamningsins. 

Níu íslensk fyrirtæki hafa byrjað þá vegferð að nýta SBTi í þessum tilgangi og fimm þeirra hafa fengið markmið sín samþykkt. Rannveig Anna Guicharnaud hjá Deloitte rakti hvað felst í loftslagsmarkmiðum SBTi en þau gera atvinnulífinu kleift að setja sér markmið í samræmi við það sem vísindasamfélagið er sammála um. Um er að ræða verkfæri sem nýtist við að skipta yfir í lágkolefnishagkerfið og skapar innleiðing þeirra ýmsan ábata í rekstri, minna kolefnisspori o.fl. Hún rakti hvað þarf að gera við að innleiða aðferðafræðina, markmið sett og leiðin að þeim vörðuð.  

Málfríður Guðný Kolbeinsdóttir, leiðtogi sjálfbærni og starfsumhverfis hjá Ölgerðinni fjallaði um vegferð fyrirtækisins í SBTi, af hverju þessi vegferð var valin, hver hún hefur verið, ávinningur hennar og næstu skref.  

Snorri Jökull Egilsson, sérfræðingur í loftslags- og umhverfismálum hjá OR sagði frá vegferð fyrirtækisins að samþykkt á kröfum til 2030 og áætlun um staðfestingu á Net-Zero losun. Hann fjallaði í þessu samhengi líka um ISO 14064 og vottun á loftslagsbókhaldi, CSRD sjálfbærnireglugerð ESB og EU Taxonomy.

Hér er hægt að nálgast upptöku af fundinum

 

 

UN Global Compact í Hörpu í næstu viku og þér er boðið.

Faghópur um loftslagsmál vekur athygli á þessari áhugaverðu ráðstefnu í Hörpu í næstu viku.
SKRÁNING Á VIÐBURÐ
Þér er boðið á kynningarviðburð UN Global Compact á Íslandi sem fer fram í Hörpu þann 31. maí næstkomandi. Fundurinn hefst kl. 10:00 og boðið verður upp á léttar veitingar frá kl. 9:30. 
Með þátttöku í UN Global Compact gefst einstakt tækifæri til að hraða árangri á sviði sjálfbærni. Fyrirtæki í öllum atvinnugreinum og stofnanir geta gerst aðilar að Global Compact og þannig tekið virkan þátt í starfi samtakanna á Íslandi og um allan heim. 
Til að tryggja sæti er mikilvægt að skrá sig á viðburðinn. SKRÁNING Á VIÐBURÐ

 

Ný stjórn faghóps um loftslagsmál

Aðalfundur faghóps um loftlagsmál var haldinn 5. maí sl. Á fundinum fór fram stjórnarkjör. Úr stjórn gengu þær Berglind Ósk Ólafsdóttir, BYKO, Birta Kristín Helgadóttir, Eflu, Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, Íslandsbanka og Sigríður Ósk Bjarnadóttir, Hornsteini. Þökkum við þeim kærlega fyrir þeirra góða framlag og samstarfið í stjórn faghópsins.

Fimm voru kosin í stjórn og er hún nú skipuð tíu manns: 

  • Guðný Káradóttir, VSÓ Ráðgjöf, formaður
  • Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið
  • Ásgeir Valur Einarsson, Iðan fræðslusetur
  • Gná Guðjónsdóttir, Versa Vottun
  • Íris Þórarinsdóttir, Reitir fasteignafélag 
  • Katrín Georgsdóttir, Elding hvalaskoðun
  • Leó Sigurðsson, Örugg verkfræðistofa
  • Rannveig Anna Guicharnaud, Deloitte
  • Ingibjörg Karlsdóttir, Play Air
  • Jennifer Lynn Schwalbenberg, sjálfstætt starfandi lögfræðingur

Úrgangsmál og hringrásarhagkerfið

Fundurinn var tekinn upp og er aðgengilegur á facebooksíðu Stjórnvísi. Fundurinn var á vegum faghóps um framtíðarfræði og loftslagsmál.  Jóhannes Þorleiksson í stjórn faghópsins kynnti fyrirlesarana. Í baráttunni gegn loftlagsvánni er þörf á að leggja áherslu á hringrásarhagkerfið í auknum mæli þar sem við komum í veg fyrir að ónýttar auðlindir verði að úrgangi ásamt því að viðhalda verðmætum eins lengi og mögulegt er. Á fundinum verður hringrásarhagkerfið skoðað út frá sjónarhóli endurvinnslu og fráveitu. 

Líf Lárusdóttir, markaðsstjóri Terra ræddi um tækifærin sem fólgin eru í hringrásarhagkerfinu þegar kemur að flokkun endurvinnsluefna og úrgangsmál fyrirtækja. Terra hefur starfað við flokkun og söfnun endurvinnslu efna frá árinu 1984 og vinnur með fyrirtækjum, sveitarfélögum og einstaklingum í endurvinnslu og umhverfisvænni úrgangsstjórnun með áherslu á að koma öllum þeim efnum sem falla til í viðeigandi farveg.

Hlöðver Stefán Þorgeirsson, sérfræðingur fráveitu Veitna í nýsköpun og tækniþróun, kynnti stefnuáherslur fráveitunnar í heildarstefnu Veitna og hugsanlegar leiðir til að hrinda í framkvæmd áherslum um bætta nýtingu orku- og auðlindastrauma.

Við rekstur fráveitna vegast á sjónarmið um metnað í umhverfismálum annars vegar og hagsýni hins vegar. Fráveitan tekur við verðmætum afurðum frá viðskiptavinum sínum, þar með talið orkuríkum lífrænum efnum og áburðarefnum sem fyrirsjáanlegt er að skortur verði á á heimsvísu í fyrirsjáanlegri framtíð. Endurheimt þeirra úr skólpinu er hins vegar ekki einfalt verk. Í stefnu Veitna kemur meðal annars fram að fullnýta skuli möguleika fráveitunnar til orku- og verðmætasköpunar. Hvað þýða þessar áherslur í íslensku samhengi? 

Aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum

Fundurinn er aðgengilegur á facebooksíðu Stjórnvísi. Loftslagsváin er stærsta áskorun samtímans og ætla má að stjórnendur fyrirtækja muni í auknum mæli þurfa að takast á við loftslagstengd mál í störfum sínum á komandi árum. Í aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum eru stefna og aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum settar fram. Á fundinum fóru Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, sérfræðingur loftslagsmálum hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, yfir áætlunina, áform um kolefnishlutleysi og svöruðu spurningum þátttakenda. Anna Sigurveig situr í stjórn faghóps um loftslagsmál, hún kynnti Stjórnvísi og faghóp um loftslagsmál og hvatti alla áhugasama til að skrá sig í faghópinn. Mikill áhuga var fyrir fundinum sem 130 manns sóttu. Guðmundur Ingi sagði að búið væri að stórauka fjárframlög til loftslagsmála.  Mikið stökk hefur orðið í notkun hreinorkubíla sem eru nú 7,7% af bílaflota landsmanna.  Í dag eru hreinorkubílar 50% af öllum innflutningi á bílum.  Varðandi nýjar aðgerðir þá eru dæmi um ívilnanir fyrir virka ferðamáta. Í dag er sexföldun á innflutningi rafhlaupahjóla.  Það er ótrúlega áhugavert að sjá þessa þróun.  Hlutur Íslands í sameiginlegum efndum er að ná 29% samdrætti frá 2005 í losun.  Öll ESB ríkin fara í gegnum sömu skoðunina.  Markmiðið er að fara upp í 40% fyrir árið 2030.  Fjörugar fyrirspurnir urðu í lok fundar sem er eins og áður sagði aðgengilegur á Facebooksíðu Stjórnvísi.

Aukin áhrif umhverfismála á atvinnulífið - Að lifa í nýjum veruleika

Streymi af fundinum er á facebooksíðu Stjórnvísi. Helga Jóhanna Bjarnadóttir umhverfis- og efnaverkfræðingur og sviðsstjóri Samfélagssviðs EFLU flutti í morgun áhugavert erindi á vegum faghópa um framtíðarfræði og loftslagsmál.  Í Eflu eru m.a. unnin verkefni á sviði skipulags-, umhverfis- og samgöngumála. Helga hefur um árabil sinnt ráðgjöf á sviði umhverfis- og öryggismála í fyrirtækjum og sveitarfélögum, vistvænni hönnun og mati á  kolefnisspori bæði fyrir vörur og fyrirtæki.

Karl Friðriksson formaður faghóps um framtíðarfræði setti fundinn og kynnti Helgu Jóhönnu. Fjöldi manns mætti á fundinn og hvatti Karl fundargesti til að skrá sig í nýstofnaðan faghóp um loftslagsmál.  Helga hóf erindi sitt á að segja frá hvað þurfi að gerast á næsta árum.  Mikilvægt er að fara úr línulegu hagkerfi í hringrásarhagkerfi.  Í línulega hagkerfinu er vörunni hent í lokin en í hringrásarhagkerfi er það eins og náttúran hefur það og í lokin er ekki hent heldur endurframleitt, deilt og endurunnið.  Deilihagkerfið er farið að vera sýnilegt t.d. að deila hjólum sem er orðið sýnilegt.  Fljótlega verður farið að deila bílum.

En hvernig eru umhverfismál að hafa áhrif á atvinnulífið.  Nú er kallað eftir meira gagnsæi og upplýsingum um eiginleika vöru og þjónustu. Núna er samfélagið að verða tilbúið fyrir græna vöru og þjónustu og fjármagnstofnanir eru byrjaðir að bjóða upp á græn skuldabréf og vistvæna græna valkosti.  En hvað er umhverfisvænt?  Ísland hefur sett sér markmið að vera kolefnishlutlaust 2040.  Fyrirtæki leggja fram samfélagsskýrslur. Við mat á vörum er Svanurinn, vistspor o.fl.  Varðandi mat á fyrirtækjum og skilgreiningu á umhverfisáhrifum í rekstri er mest notað Green House Gas Procontrol, Global Reporting Initiative o.fl.  Fyrir rekstur er horft á kolefnissport fyrir árið, fyrir einstaka vöru er horft upp og niður virðiskeðjuna.   

Stóra myndin, stefna og aðgerðir í loftslagsmálum

Fundurinn var tekinn upp og má nálgast ásamt fleiri fundum á facebooksíðu Stjórnvísi.
Á þessum fyrsta fundi nýs faghóps um loftslagsmál sem stýrt var af Guðnýju Káradóttur sem situr í stjórn faghópsins voru tveir aðilar með framsögu, Halldór Þorgeirsson formaður Loftslagsráðs og Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdastjóri FESTU miðstöðvar um samfélagsábyrgð. Halldór dró upp stóru myndina í loftslagsmálum, og ræddi um framtíðarsýn og kolefnishlutleysi. Þá fjallaði hann um hlutverk og ábyrgð einkafyrirtækja og ríkisins, hvað hver og einn getur gert til að draga úr losun. Hrund sagði frá því hvernig óhagnaðardrifin samtök eins og FESTA geta látið til sín taka í loftslagsmálum. Hún sagði einnig frá nýlegri viljayfirlýsingu um fjár­fest­ing­ar í þágu sjálf­bærr­ar upp­bygg­ing­ar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra undirritaði fyr­ir hönd rík­is­stjórn­ar­inn­ar og að­il­ar sem fara fyr­ir hátt í 80% af eign­um á ís­lensk­um fjár­mála­mark­aði. 

Halldór sagði að við værum búin að panta veðurfar framtíðarinnar, við þurfum að horfast í augu við þá staðreynd að allt sem við gerum hefur áhrif til framtíðarinnar.  Mikilvægt er að horfa á hvar veiku punktarnir okkar eru.  Það eru hlutir er lúta að fráveitukerfum.   Halldór sagði mikilvægt að hugsa til þess að fjárfesta ekki í starfsemi sem ekki stenst. Mikill árangur hefur náðst í sjávarútveginum, það eru töluverð viðskipti að verða til með kolefni en það þarf að tryggja að allt sé gagnsætt og gert að fullri ábyrgð.  Hugsa þarf alltaf í 3 skrefum: 1.skilja kolefnissporið 2. Draga úr því 3. Leita til þess hvort hægt er að gera betur.  Yfirlýsingar einstakra fyrirtækja verða að standast skoðun.  Halldór hefur séð yfirlýsingar frá fyrirtækjum sem alls ekki standast.  Varðandi verkaskiptingu hér heima vildi Halldór segja að sveitarfélögin skipta miklu máli.  Ríkisstjórn á hverjum tíma þarf að hafa púlsinn á stöðunni og átta sig á hagsmunamati gagnvart nýsköpunarmöguleikum, hættum, ferðaskrifstofu framtíðar, og móta fjárfestingar framtíðarinnar á raunverulegum tækifærum.  Nú er komin ráðherranefnd um loftslagsmál. Slík nefnd kallar á samhæfingu milli ráðuneytisstjóra og þetta munu þau fylgja eftir.  Atvinnulífið þarf að styðja við slíkar breytingar.  Það sem er svo sérstakt við loftslagsvandann er að samstaðan er besta smitvörnin rétt eins og í Covid.  Á Íslandi er mikið forskot varðandi kolefnishlutleysi en við getum margt svo miklu betur.  Fjöldi fyrirspurna barst til Halldórs í lok erindis hans.

 

Halldór Þorgeirsson tók að sér formennsku í Loftslagsráði við stofnun þess árið 2018. Hann starfaði sem framkvæmdastjóri alþjóðasamvinnumála hjá skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) í Bonn í Þýskalandi frá 2004 til 2018.  Hann hafði þar m.a. yfirumsjón með samningaferlinu fyrir Parísarsamninginn árið 2015. Áður vann Halldór sem skrifstofustjóri hjá umhverfisráðuneytinu, þar sem hann var m.a. aðalsamningamaður Íslands í loftslagsmálum. 

Hrund byrjaði á að kynna hlutverk Festu sem er óhagnaðardrifin og er félagið rekið af félagsgjöldum sem 130 fyrirtæki eru aðilar að.  Í Festu eru sveitarfélag, fyrirtæki og stofnanir.  Varðandi loftslagsmálin þá gegnir Festa skýru hlutverki.  Festa þjónar sjálfbærnihugmyndinni. Hrund segir enginn tíma mega missa, Festa er kröftugt leiðarljós en gefur fyrirtækjum ekki stimpla, allir eru á sömu vegferðinni. Við þurfum að vera praktísk í hvað hver og einn getur gert.  Hrund sagði að það væru 5 ár síðan Festa og Reykjavíkurborg buðu fyrirtækjum að skrifa undir yfirlýsingu og á þann fund mættu 104 forsvarsmenn fyrirtækja. Haft var að leiðarljósi að hafa yfirlýsinguna eins einfalda og hægt er: Menga minna, mæla og birta árangurinn. Loftslagsmælir Festu og Reykjavíkurborgar var fyrst  í formi excelskjals. Nú er hann aðgengilegur öllum og kostar ekki neitt.  http://climatepulse.is/

 

Hrund byrjaði hjá Festu fyrir ári síðan.  Hrund tók dæmi um Finnland.  Ef við ætlum að ná árangri þurfum við að hugsa lengra en til 4ára í senn. Festa hefur sýn og netverk fyrirtækja og hefur leyfi til að vinna að verkefni eins og viljayfirlýsingar um sjálfbærni.  Festa er brúarsmiður og segir okkur þurfa að æfa okkur í að vinna þvert á. Langtímasýn er mikilvæg og vilji til að gera hlutina. 

Í lok fundar var boðið upp á spurningar sem voru margar.  Mikilvægt er að koma öllum í snertingu við jákvæðar fréttir en þær eru færri en þær neikvæðu.  Beina athyglinni að því hvað er spennandi að gerast. Halldór hvatti alla til að horfa á áhugaverðan fund á Ted á morgun www.countdown.ted.com    Mikilvægt þegar umræðan fer í vörn að fara í sókn. Ekki tala niður til fólks og ekki höfða til sektarkenndar heldur til jákvæðra tilfinninga.  Þetta tæknitungumál er leiðinlegt fyrir flesta.  Loftslagsmál eru hópíþrótt og mikilvægt að brjóta þetta stóra verkefni niður í litla bita.  Rétt eins í fjallgöngu, líta til baka og njóta ferðarinnar og útsýnisins. 

Hrund Gunnsteinsdóttir hefur verið framkvæmdarstjóri Festu – miðstöðvar um samfélagslega ábyrgð frá árinu 2019. Hrund, sem hefur  víðtæka 20 ára ráðgjafa- og stjórnunarreynslu, bæði á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í einkarekstri og á vettvangi World Economic Forum. Hrund er þróunarfræðingur MSc. frá London School of Economics, með diplóma frá Harvard Kennedy School í leiðtogafræðum og opinberri stjórnsýslu. 

Fyrsta stjórn faghóps um loftslags- og umhverfismál.

Nýr faghópur hefur verið stofnaður um loftslags- og umhverfismál. Stjórn faghópsins hvetur alla áhugasama til að skrá sig í faghópinn en það er gert með því að smella hér. Stjórn þessa nýja öfluga faghóps skipa: Stefán Kári Sveinbjörnsson Landsvirkjun formaður, Berglind Ósk Ólafsdóttir BYKO, Guðný Káradóttir Loftslagsráð, Jóhannes Þorleiksson Veitur, Líf Lárusdóttir Terra, Sigríður Ósk Bjarnadóttir VSÓ, Sigrún Melax Jáverk og Þóra Birna Ásgeirsdóttir Elkem.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?