Vinnuvernd til fyrirmyndar hjá VÍS
Evrópska vinnuverndarstofnunin bendir á vinnuverndarstarf VÍS og heilsueflingu starfsfólks sem fyrirmynd að góðum starfsháttum meðal evrópskra fyrirtækja.
Á heimasíðu stofnunarinnar https://osha.europa.eu/data/case-studies/safety-and-health-promotion-in-insurance-company-in-iceland/view er fjallað um hvernig VÍS stuðlar að sem bestum félagslegum og andlegum aðbúnaði starfsmanna, starfsumhverfi og heilsueflingu á vinnustaðnum. Góð og opin samskipti eru lykilatriði í að skapa vinnustaðamenningu sem byggist á trausti, umhyggju og vellíðan starfsmanna. Þau fela meðal annars í sér reglulega upplýsingagjöf frá æðstu stjórnendum um starfsemi og rekstur fyrirtækisins, árleg starfsmannasamtöl og hvatningu til starfsmanna um opinská samskipti við stjórnendur.
Sömuleiðis er komið inn á hvernig VÍS hefur frá árinu 1999 nýtt sér niðurstöður úr árlegri vinnustaðagreiningu sem mælitæki fyrir stjórnendur í að efla heilsu- og vinnuverndarstarf fyrirtæksins. Þar er líðan starfsmanna í vinnu könnuð, ánægja með starfsumhverfi, starfsálag og samskipti milli deilda innan fyrirtækisins.VÍS leggur ríka áherslu á að skapa gott jafnvægi milli vinnu og einkalífs, stuðla að þróun í starfi og heilsueflingu starfsmanna. Til dæmis með reglulegri fræðslu um líkamlegt og andlegt heilbrigði, mataræði og streitustjórnun.
Sem tryggingafélag er VÍS öðrum fyrirtækjum til fyrirmyndar í öryggismálum og vinnuvernd starfsmanna. Að lokum tiltekur Evrópuska vinnuverndarstofnunin ávinninginn af vinnuverndarstarfinu og heilsueflingu starfsmanna; jákvæður og góður vinnustaður, gott vinnuumhverfi, góð öryggis- og forvarnarmenning og síðast en ekki síst ánægt og öruggara starfsfólk.
„Þetta er auðvitað flott viðurkenning á því starfi sem við höfum unnið með það fyrir augum að vera öðrum fyrirtækjum til fyrirmyndar þegar kemur að vinnuverndarmálum. Okkur hefur tekist að skapa hér menningu sem styður vel við forvarnir og vinnuvernd og hefur öryggisnefndin okkar verið ein mikilvægasta driffjöðrin í þeim efnum,“ segir Anna Rós Ívarsdóttir framkvæmdastjóri mannauðssviðs VÍS.