Föstudaginn 28.október héldu þeir Svanur Daníelsson og Jónas Páll Viðarsson frá LNS Saga, fyrirlestur um Lean og verkefnastjórnun. Fyrirlesturinn var einmitt sameiginlegur fyrirlestur faghópa Lean og verkefnastjórnunar.
Erindið fjallaði um notkun og nálgun LNS Saga á verkefnastjórnunarverkfærinu LPS (Last Planner System) sem styðst við Lean hugmyndafræðina. LPS er sjónræn stjórnun verkefna sem færir ábyrgð skipulags á framkvæmdaraðilann og gerir honum þannig kleift að skipuleggja sínu vinnu með sínu teymi, mæla árangur og safna tölfræðilegum gögnum um vankanta skipulagsins til umbóta.
Töluverður áhugi var á erindinu og mættu um 80 manns í Háskóla Reykjavíkur. Spurningar í lok erindis voru einna helst um kostnaðartengingu og með hvaða hætti er haldið utan um upplýsingar og mælikvarða.Í stuttu máli sagt, þá er innleiðing LNS Saga ekki komin það langt að byrjað sé að greina sparnað í verkefnum við notkun kerfisins heldur liggur það beinast við að kerfið ýtir undir betra skipulag og minni sóun, sem skilar sér alltaf peningalega. Þá er einnig vert að nefna að teymisvinna verktaka og undirverktaka verður betri. Þá verður upplýsingagjöf til verkkaupa einnig sýnilegri á verkfundum þar sem vikuleg verkáætlun er ávalt sýnileg og uppfærð á s.k. morgunfundum daglega.
Þetta verklag er í raun hægt að yfirfæra á hvaða verkefnateymi sem er og þá er einnig möguleiki á að ákveða tíðni töflufunda eftir þörfum og mikilvægi verkefna.
Á morgunfundum í verkum LNS Saga er farið yfir öryggismál, hvernig gærdagurinn gekk, hver eru markmið dagsins í dag og þá er einnig rætt um hvort það sé eitthvað á þessum tímapunkti sem gæti mögulega haft áhrif á skipulag morgundagsins. Með þessu er m.a. reynt að sporna við sjö tegundum sóunar (gallar, offramleiðsla, flutningar, hreyfing, biðtími, ofvinnsla, lager). Þá er einnig haldið utan um sérstaka hömluskrá ef stærri áhættuþættir eru fyrir hendi.
Varðandi utanumhald þá hefur LNS Saga tekið saman tölfræði í heimagerðum Excel skjölum en það er þó algjörlega opið með hvaða hætti upplýsingar og mælikvarðar er sett fram fyrir LPS aðferðafræði. Það fer eingöngu eftir stærð og tegund verkefnis, hvernig því er best háttað.