Nýársfagnaður stjórna faghópa Stjórnvísi var haldinn í morgun og að þessu sinni á Teams. Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir formaður stjórnar fór örstutt yfir hvernig stuðningi við stjórnir faghópa hefur verið háttað í vetur. Í framhaldi var boðið upp á frábæran fyrirlestur „Töfrarnir í tengslanetinu“. Það voru þær kraftmiklu stöllur Maríanna og Ósk Heiða sem sem sáu um viðburðinn.
Ósk Heiða: „Ég er ekki vön að bíða eftir því að vera boðið upp. Ég held ballið sjálf og býð öðrum að vera með – ef þú spilar til að vinna eru tækifærin endalaus“
Maríanna: „Ég hef ástríðu fyrir breytingum og því að hjálpa fólki að ná árangri. Mín spurning til allra er: Fyrir hverju brennur þú“.
Eitt af því sem þær báðu viðstadda á fyrirlestrinum um var að hugleiða: Af hverju ertu í stjórn faghóps? Hvert er virðið? Þetta er sjálfboðavinna. Er það til að efla tengslanetið og auka þekkingu þína, eða til að valdefla þig og aðra, ertu að hlusta á hvað viðskiptavinurinn (Stjórnvísifélaginn) vill? Ertu að tengjast stjórnendum annarra faghópa? Hver er þinn ásetningur fyrir árið 2021 þannig að þú sjáir þig blómstra og faghópinn þinn? Stjórnvísi er frábær vettvangur til að koma sér á framfæri og til að þroskast sem manneskja.
Ósk Heiða Sveinsdóttir er forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins og hefur unnið markvisst að því undanfarin ár að auka sýnileika sinn á markaði m.a. með greinaskrifum, fyrirlestrum og LinkedIn. Ósk Heiða nýtir sér verkfæri markaðsfræðinnar og reynsluna af uppbyggingu vörumerkja og því að markaðssetja allt frá kjötfarsi til sjálfsafgreiðslulausna, til að skapa tækifæri í bæði starfsframa og leik. www.linkedin.com/in/oskheida
Maríanna er rekstrarverkfræðingur og umbreytingaþjálfari hjá Manino. Hún hefur ástríðu fyrir að hjálpa öðrum að ná árangri með því að umbylta stjórnun og menningu fyrirtækja í atvinnulífinu til að mæta áskorunum framtíðarinnar og skapa sveigjanlega og hamingjusama vinnustaði. www.linkedin.com/in/mariannamagnus