Fimmtudaginn 24. október síðastliðinn var haldinn fundur í húsnæði HR á vegum faghópa Stjórnvísi um gæðastjórnun og þjónustu- og markaðsstjórnun. Um 30 manns mættu á fundinn og var meirihluti þeirra starfsmenn í bönkum.
Á fundinum fjallaði Ásdís Björg Jóhannesdóttir um meistaraverkefni sitt frá HÍ um þjónustugæði
þjónustufulltrúa banka, greindi frá aðferðafræði rannsóknarinnar og sagði frá niðurstöðum. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar er mikilvægast að að þjónustufulltrúar gefi viðskiptavinum sínum nákvæmar upplýsingar, og þegar öllu er til skila haldið eru áreiðanleiki og fagmennska þeir þættir sem koma efst í huga viðskiptavina þegar kemur að því að meta heildarþjónustugæði þjónustufulltrúa.
Gestir voru að mestu sammála þessum niðurstöðum og bætti einn þeirra við, sem að auki vinnur í banka, að viðskiptavinir kalli einnig eftir frumkvæði í þjónustu.
Að loknu erindi Ásdísar tók Hrefna Sigríður Briem forstöðumaður BSc. náms í viðskiptadeild HR við og fjallaði um nám til vottunar fjármálaráðgjafa sem stendur starfsmönnum fjármálafyrirtækja til boða. Að náminu standa Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja, HÍ, HR og Háskólinn á Bifröst ásamt Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Hrefna kom inn á tilurð námsins og markmið en með náminu er m.a. verið að mæta auknum kröfum viðskiptavina til starfsmanna fjármálafyrirtækja og þar með auka gæði fjármálaráðgjafar og þjónustu. Það kom fram hjá Hrefnu að 80 manns hafa þegar lokið náminu og á næsta ári útskrifast um 30 til viðbótar.
Í lokin tók Hanna Dóra Jóhannesdóttir til máls og sagði frá því hvernig vottunarnámið hefði nýst henni og styrkt í starfi sínu sem viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka. Það kom fram hjá Hönnu Dóru að frá hruni hafi starf þjónustufulltrúa mikið til snúist um greiðsluerfiðleika og hin venjulegu bankaviðskipti aðeins vikið til hliðar og því hafi námið komið sér afar vel og nefndi hún sérstaklega siðfræðina.
Út frá reynslu Hönnu Dóru er hægt að draga þá ályktun að vottunarnám ýti undir aukinn styrk
í starfi, auki öryggi og stuðli að auknum áreiðanleika og fagmennsku í starfi og auki þar með
heildarþjónustugæði.