Það voru fjölmargir kjarngóðir liðir sem fyrirlesarar dagsins drógu fram á fundi Nýsköpunarhópsins í morgun, er haldinn var í samstarfi við Mannvit, og bar yfirskriftina : Nýsköpun í tæknigeiranum.
Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri Mannvits, opnaði fundinn og veitti innsýn í umhverfi fyrirtækisins. Eyjólfur var bjartsýnn og undirstrikaði að þrátt fyrir snúna tíma í umhverfinu leynast tækifærin víða og því okkar að grípa þau strax í dag í stað þess „að bíða í hundrað ár eftir framtíðinni“.
Gestur Valgarðsson, sem jafnframt er hjá Mannvit, fjallaði um verkefnastjórnun og þá vegferð sem vænlegust er til árangurs til að tryggja verðmætasköpun alla leið til viðskiptavinarins þ.e.a.s. gæði afurðarinnar sem afhent er að lokum. Reynsla og góðar undirstöður er varðar t.d. umfang verkefnis, hlutverk og ábyrgð sem og skilvirkar og reglulegar samskiptaleiðir spila þar lykilhlutverk. Samspil góðs skipulags og snerpu er einnig vænlegt til árangurs og þar getur styrkur íslendinga hvað varðar dugnað og sveigjanleika komið að góðum notum.
Þá kynnti Árni Geirsson, verkfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu Alta, til sögunnar frumkvöðlaverkefni Snæfellsnesinga, Svæðisgarður á Snæfellsnesi. Verkefninu er ætlað að laða fram það besta og kynna með skipulögðum hætti liði er varða menningu, atvinnulíf og fólk á svæðinu. Markmiðið að draga fram sérstöðu og byggja þannig upp vörumerki Snæfellsness til framtíðarvaxtar og grósku svæðisins í heild.
Að lokum tók til máls Erna S. P. Aradóttir forðafræðingur og sagði hópnum frá tilraunaverkefni Orkuveitunnar CarbFix. Viðfangsefnið er að kanna og koma á nýjum leiðum í að beisla koltvísýring, sem kemur upp úr jarðhitakerfi á Hellisheiðavirkjunnar, og dæla honum aftur niður í berggrunninn. Verkefnið hefur farið vel af stað og með aðkomu fjölmargra sérfræðinga og stofnana hér heima og erlendis hafa þegar farið fram tvær viðamiklar prófanir er lofa góðu.
Skilaboðin dagsins voru því skýr. Tækifærin innan tæknigeirans eru víða, þar er margt „í pípunum“ og almennt ríkir þar bæði framsýni og bjartsýni um það sem framundan er. Það er einmitt þetta hugarfar sem auðveldar mönnum að koma hugmyndum í framkvæmd og grípa tækifærin þegar þau gefast.