Stjórnvísifélagar heimsóttu í dag Listaháskóla Íslands þar sem þau Sóley Björt Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri og verkefnastjóri stefnumótunarinnar og Jóhannes Dagsson, lektor og fagstjóri í myndlist, sögðu frá nýlega afstöðnu stefnumótunarferli Listaháskólans. Vinnan við stefnumótunarferlið var tímafrek en gríðarlega árangursrík. Þau fjölluðu um val á aðferðum, þær leiðir sem farnar voru til að auka á samráð og þátttöku í ferlinu, og um þær áskoranir og þau tækifæri sem fólust í þátttöku alls starfsfólks.
Sóley Björt sagði frá því að strax í upphafi var ákveðið að starfsfólk og nemendur yrðu þátttakendur í stefnumótuninni til að mynda tryggð, ekki síst þegar kæmi að innleiðingu. Byrjað var á að mynda 8 manna stýrihóp sem í sátu fulltrúar alls staðar að úr skólanum. Hlutverk stýrihópsins var að greina efnið sem fram kom í ferlinu með heildina íhuga. 56% starfsmanna eru akademískir og 46% starfa við annað vítt og breytt um skólann. 85% allra starfsmanna sem starfa við annað hafa menntað sig á fræðasviði lista. Því næst voru myndaðir hópar og var fulltrúum hvers hóps boðið að funda með stýrihópnum reglulega þar sem farið var yfir markmið og aðgerðir. Þá voru aðalmarkmiðin kynnt á starfsmannafundi skólans og settar upp örkynningar þar sem allir hópar fengu 2-3 mínútur til að kynna sín lykilatriði. Þar kom skýrt fram þvert á skólann hver voru meginmarkmiðin til að setja á dagskrá næstu 5 árin fyrir Listaháskólann. Einnig var haldinn risastór fundur þar sem boðið var stjórn LHÍ, starfsfólki og forsvarsmönnum menningarstofnana, nemendum og hollnemendum (fyrrverandi nemendur) og fleiri fagfélögum sem eru bakhjarlar LHÍ. Ritarar voru á öllum borðum og varð til gríðarlega mikið af gögnum. Eins og áður sagði stóð vinnan yfir í langan tíma og til þess að rifja upp fyrir starfsfólki, halda virka samtalinu áfram og ljúka endanlegri gagnasöfnun var send út könnun þar sem kosið var um mikilvægustu þættina og allir hvattir til að setja inn athugasemdir.
Jóhannes fjallaði um að í ferlinu var grafið upp mikið magn af upplýsingum og þó kominn væri rammi voru gögnin mismunandi. Sumt voru beinar aðgerðir og annað voru yfirlýsingar um að taka t.d. þátt í fjórðu iðnbyltingunni. Frekar snemma í ferlinu dutttu þau niður á mandölu sem byrjaði sem hugmynd um hvernig maður berst við efni. Þar koma inn þrír meginþættir skólans: nám og kennsla, rannsóknir og stjórnsýsla. Þannig sást ekki bara hvað LHÍ gerir heldur líka hvernig. Notuð var myndræn framsetning þar sem allir þættir skólans sameinast í samfélagi/menningu. Fundið var út hvað var mest áberandi og reynt að finna skema til að endurspegla það sem þau voru með. Stundum voru engin kaflaheiti og útkoman varð málamiðlun. Stefnunni var skipt í yfirkafla t.d. er markmið Listaháskóllans er að vera í forystu um þróun háskólanáms í listum og bjóða framúrskarandi, nemendamiðað nám. Síðan er því lýst hvernig þessu markmiði skuli náð.
Þegar komin voru góð fyrstu drög var farið með þau inn í stýrihópinn og síðan hófst samþykktarferli sem fólst í að bera drögin undir alla fulltrúa þ.e. stýrihóp, framkvæmdaráð, fagráð, rannsóknarnefnd og forstöðumenn á stoðsviðum. Allir fengu tækifæri til að lesa skjalið vel yfir, skilja og taka þátt. Stefumótunin var síðan gefin út formlega fyrir árið 2019-2023 vegna þess að LHÍ á 20 ára afmæli árið 2019. Ákveðið var að ritið yrði bæði á íslensku og ensku.