Þann 20. mars síðastliðinn bauð Tollstjóri félögum í faghópi um gæðastjórnun á fund um stefnumörkun embættisins til ársins 2020 og nýjar áherslur í stjórnunarháttum. Tollstjóri hyggst meðal annars nýta sér aðferðafræði gæðastjórnunar, verkefnastjórnunar og stefnumiðaðs árangursmats við að koma markaðri stefnu til ársins 2020 og verkefnum í framkvæmd.
Í erindi sínu fjallaði Linda Rut Benediktsdóttir, forstöðumaður og verkefnisstjóri „Tollstjóri 2020“ um stefnumótunarferlið og starfsemi þróunarsviðs. Þróunarsvið hefur umsjón með gæða- og öryggismálum, verkefnastofu og upplýsinga- og skjalamálum hjá Tollstjóra og leiðir þverfaglegt samstarf á þessum sviðum.
Hún sagði stefnumótunarferlið hafa verið umfangsmikið og krefjandi en jafnframt skemmtilegt verkefni sem allir starfsmenn Tollstjóra hafi tekið þátt í af miklum og einlægum áhuga. Góð samvinna hafi skilað afurðum sem starfsmenn geti verið stoltir af. Út frá hlutverki, meginstefnu og framtíðarsýn hafi markmið og mælikvarðar á árangur verið skilgreindir. Þá sé lokið endurskoðun á stefnuskjölum fyrir kjarnastarfsemi Tollstjóra, innheimtu og tollframkvæmd, og þau svið er styðja starfsemina. Þessa dagana er unnið í gerð sóknaráætlunar og verkefnaskrár en áætlað er að ljúka stefnumótunarferlinu formlega í vor með útgáfu stefnumótunarskýrslu.
Guðmundur S. Pétursson, gæða-og öryggisstjóri, fjallaði um „gæðaumhverfið“ og þær kröfur sem á að innleiða í starfsemi embættisins. Mikil vinna hefur verið lögð í undirstöðuþætti gæðastjórnunar sem byggja helst á stefnumótun og framtíðarsýn Tollstjóra til ársins 2020.
Hann fór yfir kröfur ISO 9001 staðalsins og dró fram þætti í starfsemi Tollstjóra sem höfðu beina tilvísun til krafnanna. Hann sýndi fram á að margir þættir sem vörðuðu kröfurnar í staðlinum væru nú þegar virkir í starfsemi Tollstjóra og talaði út frá einfaldleikanum um þá framkvæmd að innleiða gæðastjórnun hjá embættinu. Guðmundi var tíðrætt um viðskiptavini Tollstjóra og greindi frá mikilvægi innheimtasviðs og árangurs í innheimtu og hvað hver prósenta í árangri hefur mikil fjárhagsleg áhrif. Hann dró einnig fram hverjir væru viðskiptavinir tollasviðs og greindi frá flókinni starfsemi þess sviðs.
Síðan greindi hann frá stöðunni á innleiðingu gæðastjórnunar og næstu skrefum sem felast meðal annars í innleiðingu jafnlaunastaðals IST 85:2012 en kröfur þess staðals verða jafnframt uppfylltar samhliða ISO 9001 staðlinum. Guðmundar hvetur þá sem eru að huga að vottun ISO 9001 til þess að fara jafnframt í að innleiða staðal fyrir jafnlaun. Núna er hvert svið hjá Tollstjóra að vinna sína ferla undir umsjón þróunarsviðs. Hann sagði að kröfur ISO 9001 staðalsins stýrðu þó innleiðingunni og mörkuðu fókusinn.