Faghópurinn var stofnaður í janúar byrjun 2013 og hélt sinn fyrsta fund þriðjudaginn 5. febrúar. Í stjórninni sitja 9 manns, sjá undir Faghópar - Innkaup.
Markmið með stofnun faghópsins
Meginmarkmið faghópsins er að auka vitund og skilning um mikilvægi hagkvæmra innkaupa á vörum og þjónustu innan fyrirtækja, hvort sem þau eru einkarekin eða í eigu hins opinbera. Jafnframt er markmiðið að auka ábyrgð, gegnsæi, einföldun og skilvirkni í innkaupum, menntun og sérhæfingu starfsfólks á þessu sviði ásamt því að miðla þekkingu og reynslu af, innkaupum innan fyrirtækja, útboðsmálum, verðfyrirspurnum og öðru því sem snýr að innkaupum á vörum og þjónustu í fyrirtækjum.
Hvað er faghópur um innkaup
Faghópurinn mun stuðla að því að kynna mikilvægi innkaupa í fyrirtækjum ásamt því að miðla þeim aðferðafræðum og kenningum sem tengjast innkaupamálum. Að rétt og hagkvæm framkvæmd í innkaupum verði höfð að leiðarljósi en það er m.a með því að leita eftir bestu mögulegu niðurstöðu að teknu tilliti til kostnaðar og ávinnings ásamt skýrri stjórnun og skilgreindu verklagi við innkaup á vöru og þjónustu. Mikilvægi þess að kaupa vörur á réttum tíma, á réttu verði, í réttu magni og á réttum gæðum.
Hvernig starfar hópurinn
Stefnt er að því að faghópurinn fundi a.m.k 6 sinnum á ári, dagskrá verður kynnt í byrjun hvers árs. Einnig mun hópurinn stuðla að því að vera með fyrirlestra og fræðslu er snúa að þeim þáttum sem snerta innkaup.
Fyrir hvern
Við hvetjum alla þá sem koma að innkaupum innan fyrirtækja; Stjórnendur, sérfræðinga, fulltrúa og þá sem hafa áhuga á innkaupum og telja sig hafa erindi inní hópinn að ganga til liðs við hann.