Sjálfbærniskýrslur Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna og Play valdar skýrslur ársins

 Viðurkenningar fyrir sjálfbærniskýrslur ársins voru veittar fyrr í dag við hátíðlega athöfn á Nauthóli.  Að þessu sinni voru flugfélag og lífeyrissjóður talin hafa gefið út eftirtektarverðustu skýrslur ársins. 

Festa - miðstöð um sjálfbærni, Stjórnvísi og Viðskiptaráð Íslands veittu fyrr í dag viðurkenningar fyrir sjálfbærniskýrslu ársins. Þetta er í fimmta sinn sem slíkar viðurkenningar eru veittar og að vanda var hátíðleg stemning þegar fulltrúar útgefenda skýrslanna veittu viðurkenningunum móttöku. Viðurkenningin er veitt fyrirtækjum og stofnunum sem birta upplýsingar um sjálfbærni sína og samfélagsábyrgð með markvissum og vönduðum hætti.

Að þessu sinni voru það Lífeyrissjóður Verzlunarmanna og flugfélagið Play sem talin voru hafa gefið út eftirtektarverðustu sjálfbærniskýrslur ársins 2022, fyrir rekstrarárið 2021. Skýrslur Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna og Fly Play hf. voru valdar úr metfjölda tilnefninga en að þessu sinni bárust 48 tilnefningar þar sem skýrslur frá 33 aðilum voru tilnefndar, sem er tæplega 40% fleiri en hlutu tilnefningu árið 2021.

 

Hnitmiðuð og einlæg framsetning mikilvægra þátta

Starfsemi viðurkenningahafa ársins er afar ólík, þó miklar kröfur og strangt regluverk gildi um starfsemi þeirra beggja. Annars vegar er um að ræða lífeyrissjóð, með yfir 60 ára sögu, sem hefur það hlutverk að tryggja sjóðfélögum sínum lífeyri og hins vegar ungt lággjaldaflugfélag sem leggur sig fram um að bjóða lágt verð til skemmtilegra áfangastaða.

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir vali ársins segir að sjálfbærniskýrsla Lífeyrissjóðs verzlunarmanna sé gott dæmi um upplýsingagjöf sjálfbærniþátta eins og best verður á kosið en í skýrslunni er farið yfir markmið, árangur og aðgerðir sjóðsins.

„Upplýsingarnar eru mælanlegar, samanburðarhæfar og viðeigandi fyrir starfsemi sjóðsins. Framsetning er skiljanleg og aðalatriði dregin fram á einlægan máta. Lífeyrissjóðir hafa gríðarleg áhrif í íslensku atvinnulífi, og því mikilvægt að aðrir lífeyrissjóðir taki sér upplýsingagjöf Lífeyrissjóðs verzlunarmanna til fyrirmyndar.“

Play er ungt félag og því að stíga sín fyrstu skref í skýrlsugerð. Til þessa var horft við mat skýrslunnar en í rökstuðningi dómnefndar segir að skýrslan sýni skilmerkilega að fyrsta sjálfbærniskýrsla fyrirtækja þurfi hvorki að vera innihaldslítil né gefa sérstaklega til kynna að fyrirtæki séu að stíga sín fyrstu skref í slíkri upplýsingagjöf.

„Sjálfbærniskýrsla Play er hnitmiðuð, beinir ljósum að mikilvægum þáttum fyrir fyrirtækið, í þessu tilviki losun gróðurhúsalofttegunda. Í skýrslunni er einnig farið yfir hvernig fyrirtækið ætlar að beita sér í loftslagsmálum, sem er jákvætt að sjá fyrir fyrirtæki í jafn mengandi iðnaði og flugiðnaðurinn er.“

 

Tenglar:

 

Dómnefnd og nýskipað fagráð

Í dómnefnd ársins sátu þau Reynir Smári Atlason, forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo sem var formaður fómnefndar, Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður loftslags og umhverfis hjá Landsvirkjun og Stefán Kári Sveinbjörnsson, verkefnastjóri í stefnumótun og sjálfbærni hjá Isavia.

Reynir Smári Atlason, formaður dómnefndar, segir að mörg íslensk fyrirtæki eigi hrós skilið fyrir vandaða upplýsingagjöf:

„Upplýsingagjöf sjálfbærniþátta margra Íslenskra fyrirtækja er nú orðin að sömu gæðum og við sjáum hjá þeim sem standa sig best erlendis,“ sagði Reynir Atli Smárason, formaður dómnefndar og útskýrir að þessi fyrirtæki séu betur undirbúin fyrir komandi regluverk og ákall fjárfesta en þau fyrirtæki sem ekki hafa lagt áherslu á slíka upplýsingagjöf.“

Markmið Festu, Stjórnvísis og Viðskiptaráðs með viðurkenningunni er meðal annars ýta undir notkun mælanlegra markmið og vandaðrar upplýsingagjafar á sviði sjálfbærni. Til að sinna því, samhliða stórauknum fjölda útgefinna sjálfbærniskýrsla, var að þessu sinni sett á laggirnar sérstakt fagráð sem lagði mat á allar þær skýrslur sem hlutu tilnefningu og undirbjó störf dómnefndar.

Fagráðið var skipað þremur nemendum við Háskólann í Reykjavík sem hafa lokið sérstöku námskeiði með áherslu á sjálfbæran rekstur og upplýsingagjöf, þeim Nikólínu Dís Kristjánsdóttur, Ísak Grant og Söru Júlíu Baldvinsdóttur.

 

Hvatning til áframhaldandi góðra verka

Það var Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri, sem veitti viðurkenningunni móttöku fyrir hönd Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna. Guðmundur sagðist taka við viðurkenningunni með stolti og hún væri stjórn, stjórnendum og öllu starfsfólki sjóðsins mikil og góð hvatning til að halda áfram á sömu braut:

„Það krefst góðrar samvinnu og úthalds að breyta starfsháttum og viðteknum venjum. Við gerð skýrslunnar var leitað eftir viðhorfum sjóðfélaga varðandi sjálfbærni í rekstri sjóðsins og kom þar fram rík áhersla þeirra á mikilvægi ábyrgra fjárfestinga og góðra stjórnarhátta.  Með sjálfbærniskýrslu LV kynnir sjóðurinn fyrir sjóðfélögum og öðrum haghöfum stefnumótun, markmið og árangur í sjálfbærnivegferð lífeyrissjóðsins. Opið og upplýst samtal við þá sem hagsmuna hafa að gæta skiptir miklu máli fyrir öflugan rekstur og aðlögun sjóðsins að síbreytilegu rekstrarumhverfi.“

Fyrir hönd Fly Play hf. var það Birgir Jónsson, forstjóri, sem veitti viðurkenningunni móttöku. Birgir sagði það að hljóta viðurkenningu sem þessa á fyrstu metrum flugfélagsins væri fyrirtækinu mikill heiður en ekki síður hvatning:

„Frá fyrsta degi hefur PLAY lagt mikla áherslu á sjálfbærni. Það skiptir okkur máli að sjálfbærni sé hluti af viðskiptamódeli félagsins og þar með hluti af allri ákvarðanatöku. Við höfum nú þegar byggt upp sterkan grunn og sett okkur háleit markmið í þessum efnum. Næstu skref eru að innleiða og fylgja eftir þeim markmiðum og lykilmælikvörðum sem við höfum sett okkur. Við förum tvíelfd inn í þá vegferð eftir að hafa hlotið þessa ánægjulegu viðurkenningu.“ 

Mynd

Á mynd, frá vinstri: Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi, Gunnlaugur Bragi Björnsson, samskiptastjóri Viðskiptaráðs, Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna, Birgir Jónsson, forstjóri Play, Harpa Júlíusdóttir, verkefnastjóri Festu, og Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu.

Fleiri fréttir og pistlar

Meginstraumar hnattrænna breytinga

Komin er skýrsla frá Dubai Future Foundation sem lýsir 10 meginstraumum sem munu móta heiminn okkar í náinni framtíð. Framlag skýrslunnar býr okkur undir það sem framundan er og grípa tækifærin sem hugsanlega koma í kjölfar þessara breytinga. Skýrslunni er ætlað að kynda undir nýsköpun, hvetja til ákvarðanna og knýja stjórnvöld, stofnanir og einstaklinga að vera virk í að móta sínar framtíðir. Hægt er að nálgast skýrsluna hér: https://framtidarsetur.is/2025/04/01/meginstraumar-hnattraena-breytinga/

Alþjóða dagur framtíðar, 2025. Hnattræn umræða um betri framtíð fyrsta mars næstkomandi

Frá faghópi framtíðarfræða

Þann fyrsta mars mun Millennium Project, sem Framtíðarsetur Íslands er aðili að, ásamt fimm öðrum alþjóðlegum samtökum halda upp á 12. árlega Alþjóða dag framtíðar — einstakt 24 tíma netsamtal um allan heim þar sem möguleikar sameiginlegrar framtíðar okkar verða til umræðu.

Dagurinn hefst klukkan 12 á hádegi í Nýja-Sjálandi. Þetta viðburðarríka samtal mun færast vestur á við klukkutíma fyrir klukkutíma og ljúka 24 klukkustundum síðar á Hawaii. Almenningi er boðið að taka þátt hvenær sem er til að hlusta, deila hugmyndum og ræða hvernig megi skapa betri framtíð ásamt framtíðarfræðingum. Hugsuðum og virkum samfélög um allan heim.

Frekari upplýsingar og skráning er á eftirfarandi vefslóðum:

Read the announcement.

Register to attend

Watch the video promo

 

Tólf hlutu Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi 2025

Smelltu hér til að sjá myndir frá afhendingunnimyndband, umsagnir og þá sem voru tilnefndir. Tólf einstaklingar hlutu Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi árið 2025 sem veitt voru í dag við hátíðlega athöfn á Grand Hótel að viðstöddum forseta Íslands. Verðlaunin voru veitt í þremur flokkum auk þess sem veitt voru sérstök hvatningarverðlaun en þetta er í sextánda sinn sem Stjórnunarverðlaunin eru afhent.
Handhafar Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2025 eru eftirtaldir:  Í flokki yfirstjórnenda Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innnes, í flokki millistjórnenda þær Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu Bláa Lónsins og Sigrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs, menningar og vellíðunar hjá Bláa Lóninu. Í flokki frumkvöðla stofnendur Good Good þeir Jóhann Ingi Kristjánsson, Agnar Tryggvi Lemacks og Garðar Stefánsson. Stofnendur Indo, Haukur Skúlason og Tryggvi Björn Davíðsson og stofnendur Evolytes þau Íris Eva Gísladóttir og Mathieu G. Skulason. Þessar þrjár ólíku lausnir eiga það allar sameiginlegt að snúa að bættum lífsgæðum og árangri fyrir fjölskyldur og rekstur heimila. Auk þess voru veitt sérstök hvatningarverðlaun fyrir frumkvölastarf innan rótgróinna fyrirtækja, þau hlutu Bjargey Harðardóttir meðeigandi og stjórnandi hjá 66 Norður og Eyjólfur Pálsson stofnandi Epal.   
Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi eru árlega veitt stjórnendum fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði. Yfirlýst markmið verðlaunanna er að stuðla að aukinni fagmennsku á sviði stjórnunar á Íslandi. Einnig er þeim ætlað að vekja athygli á framúrskarandi starfi stjórnenda og frumkvöðla auk þess að örva umræðu um faglega stjórnun. 

Í dómnefnd sátu

Borghildur Erlingsdóttir, formaður dómnefndar og forstjóri Hugverkastofunnar

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Katrín S. Óladóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Hagvangs

Margrét Guðmundsdóttir, fyrrverandi forstjóri Icepharma og stjórnarkona

Salóme Guðmundsdóttir, ráðgjafi og stjórnarkona

Þröstur Olaf Sigurjónsson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Ritari dómnefndar er Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi

 

 

Listi yfir þá sem eru tilnefndir til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2025 - Innilegar hamingjuóskir

Hér má sjá alla þá sem tilnefndir eru til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2025.
Útnefnt verður í þremur flokkum: Yfirstjórnendur - millistjórnendur - frumkvöðlar auk þess sem veitt verða sérstök hvatningarverðlaun.  
Forseti Íslands Frú Halla Tómasdóttir mun afhenda verðlaunin á Grand Hótel Háteigi  þann 10. febrúar nk.
Allir eru velkomnir á hátíðina sem einnig verður í beinu streymi og hefst kl.16:00. 
Þú bókar þig hér. 

Stjórnvísi óskar öllum þeim sem tilnefndir eru innilega til hamingju.  

Listi yfir þá sem eru tilnefndir til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2025 - Innilegar hamingjuóskir

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?