Í dag voru niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar 2019 kynntar og er þetta tuttugasta og fyrsta árið sem ánægja íslenskra fyrirtækja er mæld með þessum hætti.
Að þessu sinni eru niðurstöður birtar fyrir 31 fyrirtæki í 10 atvinnugreinum og byggja niðurstöður á um 200-1.050 svörum viðskiptavina hvers fyrirtækis. Líkt og undanfarin fimm ár er viðurkenning einungis veitt þeim fyrirtækjum sem eru með tölfræðilega marktækt hæstu einkunnina í viðkomandi atvinnugrein, þ.e. þar sem segja má með 95% vissu að viðskiptavinir fyrirtækisins með hæstu einkunnina séu að jafnaði ánægðari en viðskiptavinir fyrirtækisins með næsthæstu einkunnina.
Í ár var afhent viðurkenning á sex mörkuðum. Á eldsneytismarkaði fékk bensínstöð Costco 85,9 stig af 100 mögulegum, Nova fékk 75,1 á farsímamarkaði, Krónan var hæst allra á smásölumarkaði og einnig á matvörumarkaði með 74,7 stig, BYKO fékk 71,3 á byggingavörumarkaði, Sjóvá fékk 67 stig á tryggingamarkaði og á lyfsölumarkaði var Apótekarinn hæstur með 74 stig. Costco eldsneyti var einnig með marktækt hæstu einkunn allra fyrirtækja sem mæld voru í Ánægjuvoginni þetta árið og eru viðskiptavinir eldsneytissölu Costco þar af leiðandi þeir ánægðustu á Íslandi. Hins vegar ber að taka fram að Costco er ekki með ánægðustu viðskiptavinina á smásölumarkaði en þar var Costco með þriðju lægstu einkunnina eða 65,76 stig.
Efstu fyrirtækjum á mörkuðum þar sem ekki var marktækur munur á efsta og næstefsta sæti voru ekki veittar viðurkenningar en hins vegar var fulltrúum þessara fyrirtækja færður blómvöndur í viðurkenningarskyni. Þeir markaðir þar sem ekki var marktækur munur á milli hæstu og næsthæstu einkunnar voru raforkusölur, bankamarkaður og ritfangamarkaður. Í efsta sæti hjá raforkusölum var Orka náttúrunna með 65,3 sitg, Landsbankinn var hæstur á bankamarkaði með 67,5 stig og Penninn Eymundsson á ritfangamarkaði með 71,2 stig. Einkunnir allra birtra fyrirtækja í hverri atvinnugrein má sjá hér undir ítarefni.
Íslenska ánægjuvogin er í eigu Stjórnvísi og sá Zenter rannsóknir um framkvæmd á Íslensku ánægjuvoginni.