Festa, Stjórnvísi og Viðskiptaráð Íslands veittu í dag viðurkenningu fyrir Samfélagsskýrslu ársins. Þetta er í fjórða sinn sem viðurkenningin eru veitt. Myndir af hátíðinni má nálgast hér. Hérna er linkur á streymið. Frétt á visir.is
BYKO og Landsvirkjun hlutu í dag viðurkenningu fyrir eftirtektarverðustu samfélagsskýrslur ársins.
Að þessu sinni hlutu tvö fyrirtæki viðurkenningu fyrir gerð samfélagsskýrslu. Dómnefnd valdi
fyrirtæki sem eru ólík í eðli sínu og nálgast upplýsingagjöf um sjálfbærni í rekstri með nokkuð ólíkum
hætti. Með þessu telur dómnefnd að gefist tækifæri til að varpa breiðara ljósi á það mikilvæga
verkefni sem gerð samfélags- og sjálfbærniskýrslna er orðin. Annars vegar er um að ræða fyrirtæki í
smásölu sem er að stíga sín fyrstu skref í gerð samfélagsskýrslu en þetta er önnur skýrsla fyrirtækisins.
Hins vegar er það fyrirtæki sem á langa sögu í uppbyggingu þekkingar og stefnumótunar tengdri
samfélagsábyrgð. Það grundvallar starfsemi sína á nýtingu náttúruauðlinda sem hefur víðtæk bein og
óbein áhrif innanlands. Alls bárust 28 tilnefningar í ár og voru það 24 skýrslur sem hlutu tilnefningu
en þær voru 19 árið á undan.
“Það hefur mikið gildi fyrir okkar hagaðila að BYKO birti upplýsingar um sjálfbærnivegferð
fyrirtækisins. Það hefur hvetjandi áhrif bæði innan fyrirtækisins sem og utan. Með því að segja frá
sem er verið að gera, taka þátt í sjálfbærniverkefnum, fræða starfsfólk og viðskiptavini, bjóða upp á
vistvæna valkosti í byggingarefnum, þá hefur það hvetjandi áhrif á alla. Við erum að taka ábyrgð í
virðiskeðjunni, með tölum, orðum og myndum. Við erum að sýna jákvætt fordæmi og viljum vera
fyrirmynd og hvatning fyrir aðra” segir Berglind Ósk Ólafsdóttir sérfræðingur í sjálfbærni hjá BYKO.
“Við hjá Landsvirkjun höfum allt frá stofnun fyrirtækisins horft til þess að hafa jákvæð áhrif á samfélag
og umhverfi og leitum sífellt nýrra leiða til að auka sjálfbærni í starfsemi okkar” segir Hörður Arnarson
forstjóri Landsvirkjunar. “Það er þess vegna einkar ánægjulegt að hljóta viðurkenningu sem þessa, og
staðfesting á því að starf okkar er að skila sér, bæði sem okkar framlag til sjálfbærari veraldar og
einnig – vonandi – sem innblástur fyrir önnur fyrirtæki sem vilja gera vel í þessum mikilvæga
málaflokki”
Á viðburðinum, sem fram fór í Húsi atvinnulífsins í dag 8. júní, hélt Hrund Gunnsteinsdóttir
framkvæmdastjóri Festu erindi þar sem hún lagði áherslu á að upplýsingagjöf um sjálfbærni þurfi að
endurspegla árangursríkar aðgerðir til breytinga og áhrifa á rekstur á náttúru, fólk og stjórnarhætti,
“sjálfbærni er ekki viðbót við rekstur, hún er nær því að vera tilgangur hans í dag”. Fundinum stjórnaði
Konráð Guðjónsson aðstoðar framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Í dómnefnd sátu Tómas N. Möller yfirlögfræðingur Lífeyrissjóðs Verslunarmanna, Hulda
Steingrímsdóttir umhverfisstjóri Landspítala og Kjartan Sigurðsson lektor við Háskólann í Twente í
Hollandi. Viðurkenningin er samstarfsverkefni Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð, Stjórnvísi og
Viðskiptaráðs Íslands og er þetta fjórða sinn sem viðurkenningin er veitt. Markmiðið með
viðurkenningunni fyrir Samfélagsskýrslu ársins er að hvetja fyrirtæki til að setja sér mælanleg
markmið og birta reglulega, með vönduðum hætti, upplýsingar um hvernig samfélagsábyrgð og
sjálfbærni í rekstri skilar þeim og samfélaginu auknum ávinningi. Skýr stefna, framkvæmd og
upplýsingagjöf varðar leið að farsælum rekstri.
Mynd í viðhengi: Svanhildur Hólm framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, Gunnhildur Arnardóttir
framkvæmdastjóri Stjórnvísi, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar, Sigurður Pálsson forstjóri BYKO
og Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Festu
Ljósmyndari: HAG