Í morgun hélt faghópur um gæðastjórnun og ISO fund í IÐAN fræðslusetur um rótargreiningar. Þeir sem reka stjórnunarkerfi þekkja að stjórnunarstaðlar gera kröfu um að frábrigði séu greind og orsakir þeirra ákvarðaðar. Málið er hins vegar, að það er okkur ekki eðlislægt að rótargreina og því er leiðin gjarnan að sleppa því ferli og fara bara beint í leiðréttingarhaminn þegar að frábrigði koma upp í kerfinu. Þetta getur valdið því að við sitjum uppi með galla í kerfinu sem geta valdið óþarfa sóun eða skaða í starfseminni. Viðburðurinn var samansettur af tveimur 20 mínútna fyrirlestrum og 30 mínútna vinnustofu og í framhaldi fengu þátttakendur að spreyta sig við framkvæmd rótargreininga.
Í fyrirlestrunum var skoðuð annars vegar fræðilega hliðin á rótargreininigum, þar sem Birna Dís Eiðsdóttir, vottunarstjóri hjá Versa vottun, varpaði ljósi á hvers vegna við leitumst við að skoða málin of grunnt og hins vegar faglega hliðin þar sem Einar Bjarnason, kerfis- og gæðastjóri hjá LímtréVírnet, fór yfir eigin reynslu af gagnsemi vandaðra rótargreininga.