Prýðilega var mætt á fund málefnahóps Stjórnvísis um samfélagsábyrgð sl. fimmtudag. Spenntir fundargestir hlýddu þar á kynningar á þremur nýlegum meistaraverkefnum sem skrifuð voru af Íslendingum í námi við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn.
Kynningarnar þrjár snertu á hinum ýmsu málaflokkum tengdum rannsóknum á samfélagsábyrgð og var áhugavert að sjá bæði hversu mismunandi þær voru ásamt því hversu vel höfundarnir höfðu vandað til verks.
Fyrstur steig á svið Magnús Berg Magnússon og fór yfir helstu niðurstöður rannsóknar sinnar á samfélagslega ábyrgum fjárfestingum og þar til gerðum sjóðum. Hafði Magnús til að mynda orð á því að líkur bentu til þess að fjárfestar sem hugleiði siðferði og samfélagsábyrgð fyrirtækja sem þeir fjárfesta í kæmust oft að mikilvægum atriðum varðandi rekstur og framtíðarhorfur með því að rýna ekki aðeins í tölur á blaði. Þar af leiðandi hefðu þeir oft betri upplýsingar í höndunum en aðrir fjárfestar. Rannsókn hans á 119 sjóðum leiddi í ljós að Bandarískir sjóðir sem fjárfesta ábyrgt náðu ekki meðalhagnaði á meðan að evrópskir og skandinavískir sjóðir umfram ávöxtuðu miðað við markaðsvísitölu.
Sigrún Ýr Árnadóttir tók næst til máls og fjallaði um niðurstöður rannsóknar sinnar á samfélagsábyrgð í tískuiðnaðinum á Íslandi. Bentu niðurstöður Sigrúnar til að mynda til þess að íslenski fataiðnaðurinn væri töluvert á eftir öðrum löndum þegar það kæmi að samfélagsábyrgð. Áhugavert væri þó að segja frá því að smærri fyrirtæki tískuiðnaðarins sýndu meira frumkvæði en þau stærri þegar að þessum málaflokki kæmi.
Að lokum steig Þorsteinn Kári Jónsson á stokk og kynnti fyrir fundargestum niðurstöður sínar varðandi rannsókn sem hann hafði gert á rannsóknum um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Með því að styðjast við kenningar um skoðanakerfi í stofnunum benti Þorsteinn á að ungir rannsakendur rannsaka hugtakið meira og minna út frá siðferðislegum sjónarhóli en þegar fram líða stundir taki rannsóknir þó sífellt meira mark á markaðslögmálum. Ritgerðir um samfélagsábyrgð má finna á vef Festu
Fundarstjórinn, Magnús Þór Gylfason, yfirmaður samskiptasviðs Landsvirkjunar hafði orð á því að það væri vor í lofti varðandi rannsóknir á samfélagsábyrgð og það skilaði sér vonandi í meiri meðvitund og áhuga íslenskra fyrirtækja á viðfangsefninu.