Öryggið borgar sig - tækifæri í kreppu
Við núverandi efnahags- og rekstraraðstæður hefur sjaldan reynt eins mikið á stjórnendur að hlúa að og efla öryggisþáttinn í starfsemi fyrirtækjanna. Stjórnendur fyrirtækja hafa iðulega í mörg horn að líta og á stundum leiðir það til þess að þeir einblína fyrst og fremst á kjarnastarfsemina sem hefur bein áhrif á vöxt fyrirtækisins og fyrir vikið sitja öryggismálin hugsanlega á hakanum.
Há dánartíðni og tugmilljarða tap vegna slysa og heilsutjóns
Í ársskýrslu Vinnueftirlitsins fyrir árið 2010 kemur fram að undanfarin ár hafa að jafnaði 4 - 5 einstaklingar látist við vinnu sína á ári hverju og um 7 - 8000 þurft að leita læknisaðstoðar vegna vinnuslysa. Algengast er að vinnuslys verði við fall á jafnsléttu t.d. á verkpöllum og hálu yfirborði. Sömuleiðis kemur fram í skýrslunni að rannsóknir bendi til þess að allt að jafnvirði 3-5% landsframleiðslu vestrænna ríkja glatist vegna slysa og heilsutjóns við vinnu. Þetta svarar til 40-50 milljarða króna á ári hérlendis. Stór hluti kostnaðarins leggst beint á eða óbeint á íslensk fyrirtæki.
Auðvelt er fyrir fyrirtæki að meta beinan kostnað vegna vinnuslysa svo sem lækniskostnað, fjarvistir og viðgerðarkostnað. Hins vegar getur reynst erfiðara fyrir fyrirtæki að greina óbeinan kostnað vegna slysanna. Til dæmis vegna glataðrar framleiðslu, aukins rekstrarkostnaðar og lakari gæða í kjölfar þess að þurfa að ráða inn eða þjálfa upp nýjan starfsmann. Annar óbeinn kostnaður getur verið töpuð viðskipti í kjölfar vinnuslyssins, sködduð ímynd fyrirtækisins og hugsanleg skaðabótamál.
Tækifæri til efla öryggismál
Þrátt fyrir ríka kröfu eigenda að draga úr rekstrarkostnaði má það alls ekki vera á kostnað öryggismála íslenskra fyrirtækja. Þar er átt við allt sem snýr að öryggi starfsfólks, vinnuumhverfi og framleiðslu. Því miður eru dæmi um að fyrirtæki freistist til að draga úr almennu viðhaldi á húsnæði, starfsumhverfi og framleiðslubúnaði sem getur leitt til þess að öryggi og heilbrigði starfsfólks sé ógnað. Þegar slíkar ákvarðanir eru teknar verða eigendur og stjórnendur fyrirtækja að hafa í huga að það er ekki aðeins skylda þeirra samkvæmt Vinnuverndarlögunum að sinna öryggismálum, heldur einnig siðferðileg og samfélagsleg skylda.
Í erfiðu rekstrarumhverfi og harðnandi samkeppni þurfa fyrirtæki að leita allra leiða til að viðhalda og bæta samkeppnisstöðu sína og framleiðni. Erlendar rannsóknir sýna að starfsfólk á Vesturlöndum hefur aldrei verið eins reiðubúið og nú til að taka þátt í breytingum og innleiða nýjar áherslur í starfsemi fyrirtækja. Óvissa um rekstrarhæfni þeirra og hugsanlegan starfsmissi gerir þetta meðal annars að verkum. Stjórnendur hafa því kjörið tækifæri til að breyta og hagræða þar sem upplagt er að gera öryggismál að ríkum þætti í kjarnastarfsemi fyrirtækisins.
Afhverju eru öryggismál hluti af kjarnastarfsemi?
Reynslan hérlendis og erlendis hefur marg oft sýnt að þegar æðstu stjórnendur leggja áherslu á að öryggismál séu hluti af kjarnastarfsemi fyrirtækisins stuðlar það ekki einungis að öruggari vinnustað heldur líka að stöðugri og öruggari rekstri og þjónustu. Samkvæmt skráningum tryggingafélaga er minna um slys á starfsfólki og tjón á tækjum, búnaði og húsnæði hjá þeim fyrirtækjum sem sinna öryggismálunum vel en hjá þeim fyrirtækjum sem gera það ekki. Annar ávinningur af því að leggja áherslu á öryggismál er að viðskiptavinir upplifa að þeir skipti við öruggt og áreiðanlegt fyrirtæki. Ímynd fyrirtækisins verður betri og jafnframt verður það eftirsóknarverðari vinnustaður.
Í ljósi þess tuga milljarða kostnaðar sem hlýst af slysum og heilsutjóni við vinnu á Íslandi er ljóst að eftir miklu er að slægjast og í flestum tilfellum má draga úr rekstrarkostnaði með því að efla öryggismálin. Það er áskorun fyrir æðstu stjórnendur að þróa öruggt vinnuumhverfi sem er áhugavert, spennandi og arðbært. Þar sem starfsmenn líta jafnframt á öryggismál sem hagnýt, gagnleg og spennandi í stað hindrunar og kostnaðar við að sinna starfi sínu. Ef forysta og frumkvæði stjórnenda í öryggismálum er sterk þá er hægt að ná miklum árangri í lækka rekstarkostnað fyrirtækja.
Í næstu viku verður fjallað um hagnýtar aðferðir og aðgerðir sem stjórnendur geta ráðist í til að efla öryggismál á sínum vinnustað.