Eins og fram hefur komið var fyrsti stjórnarfundur nýs faghóps um Excel nú í vikunni. Hópurinn var stofnaður með það að markmiði að skapa samfélag þar sem við getum lært hvert af öðru og eflt tengslanetið.
Flest okkar nota Excel í sínum daglegu störfum. Sumum finnst það ágætt, öðrum gaman og enn aðrir eru stundum smá að tapa sér í Excel gleðinni. Þeir sem tilheyra þriðja hópnum eru oft á tíðum þeir einu í sínu fyrirtæki eða stofnun með þennan brennandi áhuga og vantar einhvern til að ræða við um „undur“ þessa frábæra verkfæris sem Excel er. Undirrituð er algjörlega í þeim hópi og hefur oft hugsað hvað það væri frábært ef á Íslandi væri til samfélag Excel áhugafólks eins og til er úti í hinum stóra heimi. Og nú er það að verða að veruleika.
Um 30 manns sóttust eftir því að vera í stjórn hópsins, allt frábærir kandidatar og var úr vöndu að velja. Helst hefðum við viljað hafa alla umsækjendur með í stjórn en hámarkið var 12. Úr varð ótrúlega fjölbreyttur og skemmtilegur hópur með mismunandi áhugasvið. Fyrsta verk nýrrar stjórnar verður að stilla saman strengi og búa til sameiginlega sýn sem mun leiða af sér skemmtilega dagskrá fyrir komandi mánuði. Ég held að þetta sé byrjunin á ótrúlega lærdómsríkri og skemmtilegri ferð. Komdu endilega með í ferðalagið og skráðu þig í hópinn.
Kær kveðja,
Guðlaug Erna Karlsdóttir