Stofnaður hefur verið nýr faghópur um góða stjórnarhætti. Markmið faghópsins er að stuðla að og styðja við góða stjórnarhætti innan fyrirtækja með því að skapa vettvang fyrir fræðslu og miðlun upplýsinga um málaflokkinn. Tilgangur hópsins er að gefa starfandi meðlimum í stjórnum, nefndum og ráðum og öðrum sem hafa áhuga á málaflokkinum tækifæri til að efla hæfni sína.
Tilgangurinn með góðum stjórnarháttum felur í sér að stjórnarhættir séu ávallt í samræmi við lög og reglur og að þeir styrki jafnt innviði fyrirtækja sem og efli almennt traust á markaði. Til að stjórnendur geti tileinkað sér góða stjórnarhætti er því mikilvægt að hlutverk og ábyrgð þeirra sé þeim skýrt og ljóst.
Hlutverk faghópsins er að því skapa vettvang um fræðslu og upplýsinga fyrir þá sem starfa í eða hafa áhuga á stjórnun skipulagsheilda: í stjórnum fyrirtækja, stjórnum á vegum stofnana, nefnda eða ráða.
Faghópurinn mun leitast við að vekja athygli á mikilvægi góðra stjórnarhátta innan eða á vegum skipulagsheilda, horfa til og vekja athygli á því sem vel er gert, auka umræðu og efla fræðslu um mikilvægi og þá ábyrgð sem felst í stjórnarstarfi og áhrifum þess á skipulagsheildina, vera vettvangur til vekja athygli á straumum og stefnum í stjórnarháttum og tækifæri til að efla þá sem eru starfandi stjórnarmenn eða hafa áhuga á að taka virkan þátt í stjórnarstörfum.
Á fundum hópsins skapast vettvangur fyrir þverfaglegar umræður ásamt miðlun þekkingar og reynslu á sviði stjórnunar. Þá er hópurinn góður vettvangur tengslamyndunar.
Tillögur að áhugaverðum fundum:
- Samtalið í stjórnarherberginu
- Árangursmat á stjórnarháttum
- Hlutverk í stjórnum
Rannsóknarverkefni á vegum rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti
- Stjórnarhættir í minni fyrirtækjum og ört vaxandi fyrirtækjum
- Ráðgjafastjórn