Faghópur Stjórnvísi um Þjónustu- og markaðsstjórnun hélt morgunverðarfund í samstarfi við WebMo Design um stafræna markaðssetningu með áherslu á samfélagsmiðla í OR í morgun. Á fundinum var fjallað um margt af því helsta sem er að gerast í stafrænni markaðssetningu s.s. mikilvægi stefnu, áhrifavalda, myndbandamarkaðssetningu og hvort hefðbundnir miðlar séu að lognast út af.
Sverrir Helgason, markaðsstjóri WebMo Design og sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu var fyrsti fyrirlesari dagsins. Hans erindi fjallaði um „Mikilvægi stefnu og áætlunar í stafrænni markaðssetningu. Við mörkun stefnu í stafrænni markaðssetningu er mikilvægt að gæta að eftirfarandi: 1.Markmið 2. Val á miðlum 3. Tónn og skilaboð 4. Markhópar 5.Lífrænt efni vs kostað efni. Mikilvægt er að allt efni sé samþykkt af viðskiptavininum. Birtingarplanið auðveldar mælingar og skipulag.
Hvað eru staðbundnir áhrifavaldar (e. Hyperlocal Influencer) og hvað gerir þá öðruvísi en hefðbundna áhrifavalda? - Andri Birgisson CTO/Digital Overlord & Problem Wrangler hjá Ghostlamp hélt erindi um þetta áhugaverða málefni. Fólk er farið að hafa áhrif á hugsanlega kauphegðun annarra. Hvað er það sem hefur áhrif án þess að fólk þekkist. Það sem við eigum sameiginlegt er það sem sameinar okkur og sameining skapar traust. Við eigum sameiginlegt að vera af sama þjóðerni, erum á svipuðum aldri, líklega skyldleiki í 7 ættlið og a.m.k. tvo eða þrjá sameiginlega fb vini. En treystum við t.d. strætóskýlum? Eða treystirðu frekar frænda þínum? En hvers virði ert þú sem áhrifavaldur? Þar eru skoðaðir ákveðnir þættir eins og t.d. hversu virkur ertu, hversu marga fylgjendur ertu með, hversu mikið „engagement“ færðu á efnið þitt í hlutfalli við fylgjendur, kyn, aldur, almenn staðsetning, tungumál og áhugamál. Ghostlamp getur greint hversu mikill áhrifavaldur hver og einn er og hægt að meta viðkomandi eftir því. Hugsanlega eru áhrifavaldar stærsti fjölmiðill í heimi í dag og hann er nýr miðill.
Myndbandamarkaðssetning - hvað er að gerast og hver er þróunin? Stefán Atli Rúnarsson sölu- og markaðsstjóri KALT sagði í erindi sínu að helsti kosturinn við samfélagsmiðla myndbönd væri sá að það eru mismunandi sölupunktar eftir mismunandi markhópum. Andstæðan við samfélagsmiðlamyndbönd eru sjónvarpsauglýsingar því þær eru eins fyrir alla. Kosturinn við 6 sek auglýsingar er sá að ekki er hægt að slökkva á þeim því þær eru svo stuttar. Allt of fá fyrirtæki á Íslandi eru að nýta sér það. Framtíðin liggur í stuttum myndböndum þar sem sama varan er með 5 til 6 sölupunkta í mismunandi myndböndum. Kalt hefur framleitt fyrir t.d. Kjörís, Toyota, Nova o.fl.
Eru birtingar í hefðbundnum miðlum að lognast út af? Þórmundur Bergsson, framkvæmdastjóri MediaCom sagði að svarið við því væri NEI, en það eru blikur á lofti þá sérstaklega í prenti sem á undir högg að sækja. Stjórnarformaður NYT heldur að hægt verði að prenta blaðið í ca 10 ár í viðbót. Mjög skýr skipti eru í prenti milli hópa og þar skiptir aldurinn öllu. Unga fólkið er hætt að lesa dagblöð. Fréttablaðslestur byrjar um 35 ára aldur og Mbl 55 ára. Nú er það vefurinn sem er að taka yfir. Mikill samdráttur er í lestri og hann er aðallega hjá ungu fólki. Það er stemning fyrir vefmiðlum en ekki lengur fyrir prentuðum miðlum.