Um 100 manns mættu á fund á vegum faghóps um gæðastjórnun hjá Stjórnvísi í morgun. Fundurinn bar heitið: "Rafræn skjalavarsla stofnana - helstu áskoranir" og var haldinn í Þjóðskjalasafni Íslands á Laugavegi 162. Svo mikill var áhuginn á málefninu að loka þurfti fyrir skráningu og komust því færri að en vildu. Eiríkur G. Guðmundsson þjóðaskjalavörður setti fundinn og sagði það einstaklega ánægjulegt að Stjórnvísifélagar ásamt Gæðastjórnunarfélagi Íslands skyldu vígja nýjan glæsilegan sal á efstu hæð hússin. Á síðasta áratug hafa miklar breytingar orðið á skjalavörslu þar sem rafræn kerfi eru að taka yfir þar sem áður var pappír. Strangar reglur gilda um skjalavörslu opinberra aðila en eitt af hlutverkum Þjóðskjalasafns Íslands er að setja reglur um skjalavörslu og hafa eftirlit þar um. Það er umfangsmikið verkefni fyrir allar stofnanir að viðhalda heildstæðu málasafni og að færa skjalavörslu úr pappírsumhverfi yfir í rafræn kerfi.
Anna Guðrún Ahlbrecht, gæðastjóri Landmælinga og í stjórn faghóps um gæðastjórnun stjórnandi fundinum og kynnti Stjórnvísi. Gæðastjóri Mannvirkjastofnunar, Bjargey Guðmundsdóttir og gæðastjóri Einkaleyfastofunnar Bergný Jóna Sævarsdóttir sögðu frá helstu áskorunum við að taka upp rafræna skjalavistun en stofnanirnar hafa nýlega fengið samþykki Þjóðskjalasafns fyrir rafrænum skilum. Þær fjölluðu um það hvernig skjalastjórnun og gæðastjórnun tvinnast saman. Njörður Sigurðsson, sviðsstjóri skjalasviðs hjá Þjóðskjalasafnisagði frá því hvernig málið horfir við Þjóðskjalasafni. Velt var upp spurningum um þróun skjalamála hjá nágrannaþjóðunum og framtíðarsýn Þjóðskjalasafns varðandi þróunina hér á landi.
Fundurinn var haldinn í samstarfi við Félag gæðastjóra í opinberri stjórnsýslu.
Þjóðskjalasafn Íslands
Laugavegi 162, 105 Reykjaví