Á Landspítala, einum stærsta vinnustað landsins, er ársveltan um 54 milljarðar króna á ári. Þrátt fyrir efnahagslegar hremmingar á síðustu árum hefur starfsemi spítalans bæði vaxið og tekið miklum breytingum og hefur sú þróun gert meiri kröfur til kostnaðarstýringar og kostnaðargreiningar en áður.
Eitt af verkfærum spítalans til eftirfylgni með rekstri og starfsemi er framleiðslu- og kostnaðarkerfið Framtak, en smíði þess hófst á LSH um síðustu aldamót. Framleiðslan er greind með alþjóðlegu flokkunarkerfi, svo kölluðu DRG kerfi (Diagnosis Related Groups), en kostnaðargreiningin byggir á verkgrunduðum kostnaðarreikningi sem færir, skiptir og dreifir rekstrarkostnaði spítalans niður á einstakar þjónustueiningar (Activity Based Costing, ABC). Kerfið gefur möguleika á að bera saman fyrirfram ákveðið verð framleiðslunnar, byggt á kostnaðargögnum LSH, og raunkostnað á hverjum tíma og gefur möguleika á kostnaðarstýringu og framleiðnimælingum. Framtak er í dag hluti af vöruhúsi gagna, sem ásamt öðrum gögnum úr fjárhagskerfinu Orra leggur grunn að umfangsmiklum greiningum á starfsemi og rekstri spítalans.
Annað verkfæri við kostnaðarstjórnun er fjárhagsáætlun spítalans, bæði í heild og fyrir einstök svið hans. Fjárhagsáætlunin gegnir lykilhlutverki við ráðstöfun fjár til einstakra þátta starfseminnar og við eftirfylgni og eftirlit með henni. Ferlið við gerð fjárhagsáætlunarinnar er miðstýrt að hluta, en talsverð dreifstýring er þó við fjármálastjórn og rekstrarákvarðanir á spítalanum.
Viðburður þann 01. okt. 2015, Borgarspítalahúsinu í Fossvogi, Blásalir, kl. 08:30-10:00. Hámark 40.