Hér má sjá myndir frá afhendingunni á Nauthól í hádeginu í dag.
Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð, Stjórnvísi og Viðskiptaráð Íslands veittu í dag í annað sinn verðlaun fyrir Samfélagsskýrslu ársins. Í ár hlaut Isavia verðlaunin, sem voru afhend við hátíðlega athöfn.
Markmiðið með viðurkenningunni er að hvetja fyrirtæki til að setja sér mælanleg markmið og birta reglulega opinberlega, með vönduðum hætti, upplýsingar um hvernig samfélagsábyrgð og sjálfbærni í rekstri fyrirtækja skilar þeim og samfélaginu auknum ávinningi.
Alls bárust 29 tilnefningar um 16 fyrirtæki. Í dómnefnd voru Katrín Olga Jóhannesdóttir formaður Viðskiptaráðs Íslands, Kjartan Sigurðsson við Háskólann í Reykjavík og Jóhanna Harpa Árnadóttir, verkefnastjóri hjá Landsvirkjun, sem var jafnframt formaður dómnefndar.
Í mati dómnefndar kemur fram að skýrslan er unnin í samráði við hagaðila og fjölda starfsfólks Isavia, frá öllum sviðum fyrirtækisins. Einnig var fenginn utanaðkomandi ráðgjafi til að yfirfara og tryggja gæði upplýsinganna.
Samfélagsskýrslan fylgir alþjóðlegum stöðlum GRI standards, hún er skrifuð í samræmi við árangur fyrirtækisins í að ná settum, mælanlegum markmiðum fyrir árið 2018 sem eru ennfremur tengd lengri tíma markmiðum, svo sem sjálfbærniáherslum stjórnvalda og alþjóðlegum viðmiðum: UN Global Compact, GRI, Heimsmarkmiðunum og Air Transport Action Group.
Ábendingum um innihald skýrslunnar er fagnað af hálfu skýrsluhöfunda og þannig leitast við að tryggja stöðugar umbætur. Fjallað er um á gagnsæjan hátt hvernig til tókst að ná markmiðum, en einnig hvað gekk ekki eftir og hvernig unnið verður áfram með þau atriði.
Þá er skýrslan sett fram á myndrænan og aðgengilegan hátt, er gefin út rafrænt sem vefsíða og hana má einnig nálgast í gagnagrunni GRI í gegnum vefsíðu GRI-samtakanna.
Í niðurlagi í mati dómnefndar segir enn fremur að „með því að fylgja sérákvæðum GRI er verið að horfa sérstaklega til þeirra áskoranna og tækifæra sem flugvellir standa frammi fyrir þegar kemur að sjálfbærni. Niðurstaða dómnefndar er að árs- og samfélagsskýrsla Ísavía sé til fyrirmyndar og hljóti viðurkenningu sem besta skýrslan árið 2019.“
Frétt á ISAVIA