Fundur var haldinn í faghópi um gæðastjórnun fimmtudaginn 20. nóvember. Á fundinum fjallaði Reynir Kristjánsson, gæðastjóri hjá Hagstofu Íslands, um innleiðingu gæðastjórnunar hjá stofnuninni.
Í upphafi erindis síns fjallaði Reynir um hvað felst í gæðastjórnun, þ.e. að bæta gæði vinnu og afurða fyrirtækja. Reynir lagði áherslu á að gæðastjórnun væri ekki pappírsvinna og rökstuddi þá skoðun sína með sannfærandi hætti.
Síðan rakti Reynir með nokkrum orðum hvernig gæðastjórnun japanskra fyrirtækja hrakti vestræn ríki til gagngerðar endurskoðunar á eigin stjórnunarháttum. Þá sagði hann frá þeirri vinnu sem fram hefur farið hjá Hagstofu Íslands.
Farið var í skoðun á því hver hin eiginlegu verkefni eru, ferli greind sem og undirferli. Við kortlagningu ferla telur Reynir mikilvægt að skrásetja ferlin eins og þau raunverulega eru, en með notkun almennra líkana eins og GSBPM (almennt verkferlalíkan í hagskýrslugerð) er hægt að gera það með stöðluðum hætti. Slíkt eykur verulega notagildi ferlarita þegar kemur að samanburði og lærdómi. Þá hafa verið skrifaðar verklagsreglur með upplýsingum um hver ber ábyrgð á hverjum verkþætti. Reynir lauk erindinu með umfjöllun um stöðu innleiðingar gæðastjórnunar hjá stofnuninni.