Vodafone (Sýn hf) bauð vörustjórnunarhópnum (innkaup og birgðastýring) í heimsókn á dögunum. Það var vel mætt á viðburðinn og voru það þær Eydís Ýr Rosenkjær, deildarstjóri innkaupa og lagers, og Guðrún Gunnarsdóttir, aðfangastjóri hjá Vodafone, sem tóku á móti okkur í höfuðstöðvum fyrirtækisins.
Eydís lýsti því hvernig innkaupum og birgðastýringu er háttað hjá Vodafone og hvaða ávinningi það skilaði fyrirtækinu að hafa miðlægan lager. Hún talaði einnig um kosti þess að vera með miðlægan flutning og getur verðmunur á tilboðum verð allt að 30-40%. Innkaupadeildin sér um innkaup á endabúnaði, farsímum og aukahlutum en fyrirtækið rekur 4 verslanir auk þess að vera með vefverslun. Mikið er lagt upp úr birgðanákvæmni og er allur lager bæði í vöruhúsi og verslunum talinn að minnsta kosti einu sinni í mánuði. Unnið er eftir ákveðnum mælikvörðum, til að mynda lágmarksbirgðir, tíðni pantana, afskrifta og frávikum við talningar. Hún fór yfir gagnsemi þessara mælikvarða og útfærslu þeirra hjá Vodafone.
Guðrún Gunnarsdóttir fór yfir hvernig þeirra útboðsaðferðir og samningastjórnun í innkaupum skilar fyrirtækinu betri árangri. Þau framkvæma verðkannanir fyrir allt það sem er keypt m.a. vörur, þjónustu og ráðgjöf, bæði innanlands sem utan. Birgjamat er líka framkvæmt á mjög faglegan hátt en þau eru mismunandi eftir stærð og staðsetningu birgja. Einnig talaði hún um hvernig miðlæg innkaupastýring fyrir öll vörumerki félagsins hafi hjálpað þeim að ná fram fjárhagslegum sparnaði og hafi um leið aukið gæði og öryggi innkaupa. Samstæðan veltir rúmlega 22 milljörðum á ári en innkaup á vörum og þjónustu er ríflega helmingur þeirrar fjárhæðar og skiptir því hvert prósentustig sem sparað er gríðarlegu máli fyrir hagnað fyrirtækisins. Guðrún sagði frá því hvernig ráðgjöf við stjórnendur vegna tilboða og samninga kemur að gagni, skjalastýringu samninga og hvernig þau hafa með því náð að hámarka virði samninga. Þau eru með eigið samningastjórnunarkerfi sem heldur utan um alla samninga fyrirtækisins en yfir 5.000 samningar eru í gildi um kaup á vörum og þjónustu. Hún sagði einnig frá þeim ávinningi sem hlýst af samstarfi í innkaupum við Vodafone Group.
Til að sækja glærur frá fyrirlestrinum: Smellið hér!