Fimmtudaginn 19.janúar s.l. komu saman rúmlega 80 forstjórar, framkvæmdastjórar og stjórnarfólk á fundinn #metoo – og hvað svo?
Það var Stjórnvísi í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið Nolta sem buðu til þessa vinnufundar með það að leiðarsljósi að safna saman hagnýtum hugmyndum sem geta aðstoðað vinnustaði að taka góð skref fram á við í kjölfar metoo umræðu á Íslandi.
Í upphafi fundarins voru flutt erindi af Heiðu Björgu Hilmisdóttur, borgarfulltrúa og einni af upphafskonum #metoo á íslandi og Eyjólfi Árna Rafnssyni, formanni SA .
Að erindum loknum var vinnufundurinn keyrður af stað. Stuðst var við þjóðfundarform.
Það ríkti mikil orka á fundinum og mátti heyra mikla ánægju fundargesta. Margir sögðust fara með góðar hugmyndir í farteskinu inn á sína vinnustaði, hugmyndir sem hægt væri að vinna strax að. Til þess var leikurinn gerður – að fá fólk til að tala saman, styðja hvert annað og hvetja til að gera íslenska vinnustaði betri.
Umræður og helstu niðurstöður snéru að eftirfarandi:
- Leggja áherslu á samábyrgð ekki þöggun
- Brjóta upp staðalímyndir
- Setja siðareglur og móta samskiptasáttmála og samskiptareglur – unnið innan í frá
- Hafa skýr og sveigjanleg ferli
- Samábyrgð allra, þátttaka starfsmanna í mótun vinnulags og mótun ferla um samskipti
- Fyrirtækjamenning sett á dagsskrá og hún vel skilgreind
- Hafa öfluga fræðslu td í formi umræðna/samtals
- Kenna samskiptatækni
- Við skuldbindum okkur að fara að lögum og reglum
- Hafa stjórnendaþjálfun sem miðar að samskiptasáttmála.
- Stuðla að sérhæfðari vinnustaðagreiningum tengdum metoo og endurskoða núverandi vinnustaðagreiningar með metoo gleraugum
- Greina stöðuna á vinnustöðum í dag af utanaðkomandi t.d. kynjafræðingum
- Safna gögnum um uppgjör og sáttargjörð
- Skapa vettvang þar sem gerandi geti beðist afsökunar og bætt sig í samráði við þolanda
- Virðing verði 360 gráðu mál
- Leggja áherslu á að virða upplifanir annarra þó svo að maður skilji þær ekki alltaf
- Ýta undir meiri fljölbreytileika og jöfn tækifæri
- Ísland verði leiðandi í úrlausn metoo á heimsvísu
- Setja mörk
- Benda á góðar fyrirmyndir t.d. stjórnenda
- Stjórnendur verða að leiða menninguna og stefnur, vera fyrirmyndir, geri þessi mál að sínu samkvæmt ákveðnu vinnulagi.
Á næstu dögum verður allt efni fundarins, glærur og umræðupunktar aðgengilegt á heimasíðu og facebooksíðu Stjórnvísi og facebooksíðu Nolta.