Fjölmenni mætti á árlega kynningu faghóps um Lean á grunnatriðum straumlínustjórnar í OR í morgun. Þórunn Óðinsdóttir ráðgjafi hóf fyrirlestur sinn með því að segja örstutt frá sögu Lean. Kjarninn í hugmyndafræðinni er að veita viðskiptavininum nákvæmlega þá vöru/þjónustu í þeim gæðum á því verði á þeim tíma sem hann óskar eftir. Alla jafna vita sölumenn hver er viðskiptavinur fyrirtækisins en innri viðskiptavinir eru ótrúlega margir t.d. er fjármáladeildin með alla stjórnendur fyrirtækisins sem viðskiptavini. Alltaf skal spyrja viðskiptavininn hvort heldur hann er innri eða ytri hvort við getum bætt ferlið okkar eitthvað. Lean gengur út á að virkja alla starfsmenn stöðugt til umbóta, ekki einungis millistjórnendur og aðra stjórnendur. Allir eru ráðnir til að sinna umbótum. „Respect for people“ er eitt það mikilvægasta í Lean heiminum. Okkur á að líða vel í vinnunni alla daga. Hvernig getum við látið viðskiptavininn flæða betur í gegnum ferlið okkar? Þórunn tók dæmi um konu sem fór á Krabbameinsleitarstöð í Svíþjóð fyrir nokkrum árum og var tíminn frá því hún mætti á leitarstöð þar til endanleg niðurstaða kom 42 dagar, eftir að ferlinu var breytt tók það einungis 2 klukkustundir að fá niðurstöður. Flæðiskilvirknin var því 67% sem er stórkostlegt.