Viðburðarefni: Að bæta árangur - Frá gögnum til gagns
Sveinn Víkingur Árnason framkvæmdarstjóri rekstrarsviðs ÁTVR hélt mjög áhugaverðan fyrirlestur í húsakynnum ÁTVR að Stuðlahálsi 2, fyrir um það bil 40 meðlimi Stjórnvísis að morgni hins 14. febrúar.
Hugmyndin var sú að hjálpa fólki við að koma einhverri reglu á allt gagnamagnið sem á það til að safnast upp í tölvum starfsmanna og kynna þeim árangursríkar leiðir til að breyta gagnahaugum í verkfæri til ákvarðanatöku.
Fundurinn hófst á því að undirritaður kynnti það sem hópurinn „Stefnumótun og Balanced Scorcard“ hjá Stjórnvísi stendur fyrir og síðan fyrirlesarann SVÁ.
Sveinn tók síðan við og byrjaði með smá kynningu á sögu ÁTVR, sagði frá þróun upplýsingamála hjá fyrirtækinu, helstu gagnastraumum og gagnavæðingu. Hvers konar umhverfi gögnunum er búið, birtingarform þeirra og upplýsingaveitur.
Hvað þarf starfsmaður að vita til að geta nýtt sér gögn í gagnlegar skýrslur og kort? Hann endaði síðan fyrirlesturinn með áhugaverðum dæmum úr rekstri ÁTVR ásamt hvatningarorðum til fundargesta um nauðsyn þess að þekkja samhengi hlutanna að öðrum kosti væri erfitt að nýtt sér tækin og tólin.
„Verum upplýstir kaupendur, það er lykilatriðið: A Fool with a tool is still a fool“.
Gert þann 3. mars 2013
Kristján F. Guðjónsson
Hver þekkir ekki gagnahauginn, samansafn mikilvægra gagna úr gagnasöfnunum fyrirtækisins sem ekki hefur unnist tími til að koma skipulagi á. Við hjá ÁTVR ætlum að taka fyrir raundæmi sem hafa nýst okkur við að bæta árangur og sýna þér okkar aðferð við að breyta þessum gögnum í verkfæri til ákvarðanatöku.
Erum við ekki öll að drukkna í gögnum sem bíða í ofvæni eftir því að fá að gera gagn?