Framtíðarhorfur og áskoranir til þjóða heimsins
Komin er út skýrslan The State of the Future 20.0, Framtíðarhorfur 20. útgáfa. Skýrslan er gefin út af samstarfsvettvanginum Millennium Project en Framtíðarsetur Íslands er formlegur samstarfsaðili vettvangsins. Skýrslan er víðtæk og veitir yfirsýn yfir málefni og tækifæri í tengslum við framtíð mannkyns. Hún sýnir það sem við ættum að vita í dag til að við getum forðast það versta og náð því besta fyrir framtíð siðmenningarinnar.
Í skýrslunni eru teknar saman 15 hnattrænar áskoranir um sjálfbæra þróun og loftslagsbreytingar, um vatn, íbúa og auðlindir, lýðræðisvæðingu, framsýni og ákvarðanatöku, upplýsingatækni og gervigreind. Skýrslan fjallar um bil ríkra og fátækra, heilsu og sjúkdóma, menntun og nám, stríð og frið. Einnig er fjallað um breytt hlutverk kvenna, skipulagða glæpastarfsemi, vísindi og tækni, orkumál og alþjóðlega siðfræði. Hvert efni inniheldur stutt yfirlit, lista yfir aðgerðir ásamt svæðisbundnum sjónarmiðum þeirra. Umrædd skýrsla er sú tuttugasta í röð sambærilegra skýrsla, og eru skýrslurnar uppfærðar reglulega. Hægt er að nálgast skýrsluna á heimasíðu Millennium Project, https://www.millennium-project.org/the-millennium-project-releases-the-state-of-the-future-20-0/