Ásta Bjarnadóttir framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Landspítala fór í dag yfir ferla og áskoranir sem Landspítali hefur staðið frammi fyrir þegar kemur að ráðningum, móttöku og starfsþróun erlendra starfsmanna. Fundurinn var haldinn á Barnaspítala Landspítalans við Hringbraut og var á vegum faghópa um málefni erlendra starfsmanna og mannauðsstjórnun.
Landspítali ræður inn erlenda sérfræðinga reglulega yfir árið bæði innan og utan EES. Ásta fór yfir hvernig Landspítali hefur aðstoðað þessa einstaklinga, hvernig er tekið á móti þeim og hvaða lærdóm Landspítali hefur dregið af þessum ráðningum. Einnig var farið yfir hvernig er haldið utan um þessa einstaklinga, hvernig er staðið að starfsþróun þeirra og hvernig Landspítalinn kemur til móts við ólíkar þarfir mismunandi hópa.
Skv. nýjustu tölum er 23% af mannaflanum með annað ríkisfang en íslenskt á vinnumarkaði á Íslandi. Á Landspítala eru 43 þjóðerni og er stærsti hópurinn frá Filippseyjum. Mesta aukningin hefur orðið í hjúkrunarfræðingum. Varðandi ráðningarferlið þegar erlendur aðili er ráðinn þá er oft farið í að aðstoða makann við að útvega sér vinnu, aðstoða við að koma börnum í skóla o.m.fl.
Mannauðsskrifstofan er komin með miðlæga móttöku í Skaftahlíð og þar fer fyrsta móttakan fram fyrir alla starfsmenn hvort heldur eru íslenskir eða erlendir. Í hverri viku koma inn 10-50 nýir starfsmenn og á fyrsta degi mæta þeir í Skaftahlíðina, mæta í nýliðamóttökuna fara í myndatöku og fá auðkennikort, opnaður er aðgangur, ræða við starfsmannahjúkrunarfræðing varðandi bólusetningar, aðstoð við skattkort, rafræn skilríki og ýmis hagnýt atriði. Mjög mikilvægt er að í öllum fyrirtækjum sé góð móttaka starfsmanna á fyrsta degi.
Íslenskunám er á öllum stigum, hefst tvisvar sinnum á ári og er Landspítalinn í samstarfi við tvo skóla Mímir fyrir heilbrigðisstarfsfólk og Retor fyrir stoð-einingar. Eftirfylgni er mikilvæg og að heyra í stjórnanda og starfsmönnum hvað það er sem betur megi fara og hvernig gangi. Það er á ábyrgð starfsmannsins sjálfs að endurnýja leyfin sín. Landspítalinn aðstoðar og fer jafnvel með starfsmönnum til Útlendingaeftirlitsins til að aðstoða við pappíra. Mikil starfsþróun er í gangi, sérstaklega fyrir hjúkrunarfræðinga. Í janúar í ár hófst sérstök starfsþróun fyrir erlenda hjúkrunarfræðinga, valdeflingarnámskeið um ákveðni þjálfun út af menningarmun.
En hvað hefur Landspítalinn lært? Skýrari ráðningarferlar, betra utan umhald um hópinn, fræðsla innan og utan spítala, strangari kröfur um íslenskukunnáttu, starfsreynsla sé vottuð og öll prófgögn séu til staðar á vottaðan h´tt áður en ferli hefst til að tryggja starfsleyfi.
Mikilvægt er að stýra flæðinu vel: hægja á ráðningum þeirra sem ekki tala íslensku, gæta að hlutfalli, ekki of margir erlendir á sömu starfseiningu, skýrari verkferlar, ráðningarlotur t.d. 2svar á ári og vinna áfram að því að einfalda ferla milli stofnana. Verið er að búa til ferli þannig að það fáist leyfi til að senda á milli stofnana upplýsingar um einstakling milli t.d. UTL, VMST og háskóla).
Einnig að auka utanumhald t.d.; fleiri opin hús, meiri eftirfylgni, tryggja að ekki sé unnið ólöglega, fleiri námskeið fyrir fleiri hópa, kynna og miðla menningu og fagna fjölbreytileikanum.