Diversify Nordic Summit

Í síðustu viku héldu tvær stjórnarkonur faghóps um fjölbreytileika og inngildingu til Osló til að taka þátt í fyrsta Diversify Nordic Summit. Ráðstefnan var haldin í fallegu umhverfi við Holmenkollen skíðasvæðið. Á ráðstefnuna var mætt fólk víðsvegar að úr heiminum, flest frá Norðurlöndunum en auk þeirra voru þátttakendur frá Norður-Ameríku, Afríku og annars staðar frá Evrópu. Þátttakendur höfðu það flest sameiginlegt að brenna fyrir fjölbreytileika og inngildingu fólks til atvinnuþátttöku og í samfélögum sínum almennt. Ráðstefnan var skipulögð af Diversify sem eru samtök, ekki rekin í hagnaðarskyni, sem vinna að því að auka fjölbreytileika innan fyrirtækja og auka skilning samfélagsins á mikilvægi inngildingar.

Chisom Udeze sem stofnaði Diversify Nordics og er forsprakki þess að ráðstefnan var sett á fót, er upprunalega frá Nígeríu. Chisom hefur búið í Noregi í fjöldamörg ár og fannst tími til kominn að stofnað væri til samtals milli Norðurlandanna á sviði inngildingar. Hún viðurkenndi í setningarræðu sinni að gera þyrfti betur á næsta ári, því enginn fyrirlesara eða þátttakenda í pallborðsumræðum voru einstaklingar með fötlun eða frá frumbyggjaþjóðum líkt og Inúíta eða Sama. Einnig var skortur á þátttakendum frá Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum og sagðist Chisom staðráðin í því að bæta um betur á næsta ári. Að takast á við vankanta sinnar eigin ráðstefnu strax í upphafi setti tóninn fyrir það sem eftir kom. Umræður voru innihaldsríkar, gagnrýnar og á sama tíma leituðust þátttakendur til að sýna hvorum öðrum skilning. Öll voru vissulega komin til að læra af hvoru öðru, öðlast reynslu og betrumbæta sín samfélög eða fyrirtækjamenningu.

Þann lærdóm sem við drógum helst af þessari ráðstefnu er að Ísland er ekki bara komið frekar stutt á veg í þessu málefni, heldur eru Norðurlöndin ekki endilega komin mikið lengra en við í þessari umræðu. Hin svokallaða samnorræna „afneitun“ (e. Nordic denial), þ.e. tilhneigingin til að halda svo fast í þá hugmynd að allt hljóti að vera í lagi í velferðarríkjunum okkar að ekki gefst rými til að tala um vandamálin, eða hlusta á raddir þeirra sem verða fyrir óréttlæti í okkar eigin ríkjum, ristir enn djúpt. Nauðsynlegt er að horfast í augu við þá fordóma sem eru ríkjandi hjá okkur sjálfum og skoða hvernig ómeðvituð hlutdrægni heldur aftur af ákveðnum hluta fólks.

Þrátt fyrir að öll Norðurlöndin geti greinilega gert mun betur til að breyta hugarfari sínu gagnvart fjölbreyttu starfsfólki þá þykir okkur enn vanta upp á að samtalið sé tekið á Íslandi. Frá hinum löndunum mátti sjá mjög fjölbreyttan hóp einstaklinga sem starfa við mannauðsmál, fjölbreytileika- og inngildingarstjórnun fyrir hin ýmsu fyrirtæki og var umræðan eftir því. Þetta er ólíkt því sem gerist alla jafna á Íslandi. Hér er vissulega fjölbreytileiki til staðar, enda næstum fjórðungur íbúa landsins innflytjendur, börn innflytjenda eða einstaklingar með erlendan bakgrunn. Samt sem áður skortir fjölbreytileikann enn í mörgum geirum og sérstaklega í stjórnunarstöðum. 

Við viljum ekki að Ísland verði eftirbátur hinna landanna, enda höfum við allt bolmagn til þess að vera framarlega á sviði inngildingar, líkt og í svo mörgu öðru. Það er von okkar að sá aukni áhugi sem við finnum fyrir að fólk sýni inngildingu færi íslenskum fyrirtækjum og íslensku samfélagi meiri velferð. Enda hafa fjölbreyttar raddir, með fjölbreytta reynslu, sannað að þær færa sínu nærumhverfi hagsæld og hamingju - svo fremi sem þær upplifa inngildingu. 

Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, stjórnarmeðlimur

Irina S. Ogurtsova, formaður

 

Fleiri fréttir og pistlar

Alþjóða dagur framtíðar, 2025. Hnattræn umræða um betri framtíð fyrsta mars næstkomandi

Frá faghópi framtíðarfræða

Þann fyrsta mars mun Millennium Project, sem Framtíðarsetur Íslands er aðili að, ásamt fimm öðrum alþjóðlegum samtökum halda upp á 12. árlega Alþjóða dag framtíðar — einstakt 24 tíma netsamtal um allan heim þar sem möguleikar sameiginlegrar framtíðar okkar verða til umræðu.

Dagurinn hefst klukkan 12 á hádegi í Nýja-Sjálandi. Þetta viðburðarríka samtal mun færast vestur á við klukkutíma fyrir klukkutíma og ljúka 24 klukkustundum síðar á Hawaii. Almenningi er boðið að taka þátt hvenær sem er til að hlusta, deila hugmyndum og ræða hvernig megi skapa betri framtíð ásamt framtíðarfræðingum. Hugsuðum og virkum samfélög um allan heim.

Frekari upplýsingar og skráning er á eftirfarandi vefslóðum:

Read the announcement.

Register to attend

Watch the video promo

 

Tólf hlutu Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi 2025

Smelltu hér til að sjá myndir frá afhendingunnimyndband, umsagnir og þá sem voru tilnefndir. Tólf einstaklingar hlutu Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi árið 2025 sem veitt voru í dag við hátíðlega athöfn á Grand Hótel að viðstöddum forseta Íslands. Verðlaunin voru veitt í þremur flokkum auk þess sem veitt voru sérstök hvatningarverðlaun en þetta er í sextánda sinn sem Stjórnunarverðlaunin eru afhent.
Handhafar Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2025 eru eftirtaldir:  Í flokki yfirstjórnenda Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innnes, í flokki millistjórnenda þær Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu Bláa Lónsins og Sigrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs, menningar og vellíðunar hjá Bláa Lóninu. Í flokki frumkvöðla stofnendur Good Good þeir Jóhann Ingi Kristjánsson, Agnar Tryggvi Lemacks og Garðar Stefánsson. Stofnendur Indo, Haukur Skúlason og Tryggvi Björn Davíðsson og stofnendur Evolytes þau Íris Eva Gísladóttir og Mathieu G. Skulason. Þessar þrjár ólíku lausnir eiga það allar sameiginlegt að snúa að bættum lífsgæðum og árangri fyrir fjölskyldur og rekstur heimila. Auk þess voru veitt sérstök hvatningarverðlaun fyrir frumkvölastarf innan rótgróinna fyrirtækja, þau hlutu Bjargey Harðardóttir meðeigandi og stjórnandi hjá 66 Norður og Eyjólfur Pálsson stofnandi Epal.   
Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi eru árlega veitt stjórnendum fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði. Yfirlýst markmið verðlaunanna er að stuðla að aukinni fagmennsku á sviði stjórnunar á Íslandi. Einnig er þeim ætlað að vekja athygli á framúrskarandi starfi stjórnenda og frumkvöðla auk þess að örva umræðu um faglega stjórnun. 

Í dómnefnd sátu

Borghildur Erlingsdóttir, formaður dómnefndar og forstjóri Hugverkastofunnar

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Katrín S. Óladóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Hagvangs

Margrét Guðmundsdóttir, fyrrverandi forstjóri Icepharma og stjórnarkona

Salóme Guðmundsdóttir, ráðgjafi og stjórnarkona

Þröstur Olaf Sigurjónsson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Ritari dómnefndar er Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi

 

 

Listi yfir þá sem eru tilnefndir til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2025 - Innilegar hamingjuóskir

Hér má sjá alla þá sem tilnefndir eru til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2025.
Útnefnt verður í þremur flokkum: Yfirstjórnendur - millistjórnendur - frumkvöðlar auk þess sem veitt verða sérstök hvatningarverðlaun.  
Forseti Íslands Frú Halla Tómasdóttir mun afhenda verðlaunin á Grand Hótel Háteigi  þann 10. febrúar nk.
Allir eru velkomnir á hátíðina sem einnig verður í beinu streymi og hefst kl.16:00. 
Þú bókar þig hér. 

Stjórnvísi óskar öllum þeim sem tilnefndir eru innilega til hamingju.  

Listi yfir þá sem eru tilnefndir til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2025 - Innilegar hamingjuóskir

Upptaka frá viðburðinum: Can your dreams improve your leadership skills.

Í gær fjallaði Michael Rohde, sérfræðingur í draumum hvernig við getum nýtt draumana okkar til að skilja djúpvitund eða ómeðvitaða greind okkar og hvernig við getum nýtt þessa vitneskju í okkar daglega lífi til að auka persónulegan þroska. 

Michael hefur helgað feril sinn því að kanna djúpstæð áhrif drauma á líf okkar í vöku, sérstaklega á sviði leiðtoga og persónulegs þroska. 

Hægt er að horfa á upptöku af viðburðinum næstu vikuna og hlekk á hana og glærurnar má finna á síðu viðburðsins hér

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?