Framtíðarhópur Stjórnvísi – Alþjóðlegar sviðsmyndir til ársins 2050
Samþjöppun auðs og tekjumunur hópa innan samfélaga eykst, ef marka má framtíðarrýni sem framtíðarhópurinn Millennium Project hefur gefið út. Arðsemi fjármagns og tækni eykst meira en arðsemi vinnuafls, en kostnaður við gervigreind og þjarkanotkun lækkar. Þetta hefur veruleg áhrif á vinnumarkaðinn og samfélagsþróun almennt.
Framtíðarfræðingar Millennium Project hafa dregið upp sviðsmyndir um þróun ólíkra þátta á alþjóðavísu til ársins 2050. Skýrslan nefnist „Work/Technology 2050 – Scenarios and Actions“. Til grundvallar eru þrjár sviðsmyndir sem mótaðar voru í 30 vinnustofum í 29 löndum. Auk sviðsmyndanna er sagt frá 93 aðgerðum sem metnar hafa verið af sérfræðingum frá 50 löndum.
Millennium Project er sjálfstæður vettvangur framtíðarfræðinga og stofnana með 65 samstarfsaðila víðsvegar um heiminn. Framtíðarsetur Íslands er samstarfsaðili vettvangsins hér á landi, í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Á vinnustofum vettvangsins voru mótaðar aðgerðir til að mæta framtíðaráskorunum í viðkomandi sviðsmyndum. Sérfræðingar á ýmsum sviðum mátu hagkvæmni og áhrif aðgerðanna. Til að leggja mat á þær voru að auki gerðar fimm alþjóðlegar kannanir meðal aðila úr opinbera geiranum, viðskiptalífi og vinnumarkaði og mennta- og menningargeiranum.
Í framangreindum sviðsmyndum er dregin fram ítarleg atburðarrás til ársins 2050. Sviðsmyndirnar eru:
- Órói í stjórnmálum og efnahagsmálum – framtíðarörvænting
(Political/Economic Turmoil—Future Despair)
- Ef menn væru frjálsir – efnahagslíf einstaklingsins
(If Humans Were Free—The Self-Actualization Economy)
- Það er flókið – bland í poka
(It’s Complicated—A Mixed Bag)
Skýrslan hefur fengið góðar viðtökur og umsagnir. Þau sem láta sér annt um framtíðarþróun og áskoranir ættu að kynna sér þetta framlag og nýta í vinnu sinni.
Hægt er að nálagst skýrsluna á vef Millennium Project, sjá hér. Vettvangurinn hefur einnig gefið út fjölda annarra rita þar sem fjallað er um framtíðina á faglegan hátt.
Frekari upplýsingar veitir Karl Friðriksson hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
karlf@nmi.is. Sími 8940422.