Fundurinn er aðgengilegur á facebooksíðu Stjórnvísi.
Í morgun var haldinn fundur á vegum faghóps um samfélagsábyrgðar hjá Stjórnvísi og FKA sem bar yfirskriftina „Af hverju eru ekki fleiri konur forstjórar og framkvæmdastjórar? Á þriðja hundrað manns sóttu fundinn. Fundarstjóri var Halldóra Ingimarsdóttir hjá Sjóvá. Kreditinfo birti nýlega könnun sem sýndi hversu fáar konur hlutfallslega eru enn í stjórnum íslenskra fyrirtækja.
Markmið fundarins var að varpa ljósi á ástæðurnar sem gætu legið að baki og hvernig við getum saman unnið meðvitað að auknu jafnrétti þannig að konur og karlar raðist með jafnari hætti í stjórnendastöður.
Jafnrétti – er þetta ekki bara komið?
Ágústa Bjarnadóttir, mannauðsstjóri Sjóvá, fór yfir helstu aðgerðir í jafnréttismálum síðustu ára og hver séu næstu skref. Sjóvá er eitt þeirra fyrirtækja í íslensku atvinnulífi sem látið hefur jafnrétti sig varða svo um munar. Þjóðarspegill HÍ var nýlega með fund þar sem kom fram að konur kæmust síður að borðinu og þar var rætt hvaða reynsla er mikilvæg. Eftir að hafa starfað við ráðningar í 16 ár sagði Ágústa að mikilvægt væri að hafa lokahópinn sem fjölbreyttastan. Við eigum frábæra aðila bæði karlkyns og kvenkyns. Tengslanet kvenna og karla er ólíkt kom fram í þessari rannsókn. En hver er staðan hjá Sjóvá? Lengi hefur verið yfirlýst markmið að hafa jafnt kynjahlutfall í stjórn og framkvæmdastjórn og í nefndum Sjóvá eru 60% konur. Í framkvæmdastjórn Sjóvá eru nú 2 konur 1 karl og síðan forstjóri. Árið 2019 var kynntur kynjakvarði fyrir íslenskan hlutabréfamarkað og þar er Sjóvá með hæstu einkunn. En það er mikilvægt að hafa jafnréttismenningu og vísaði Ágústa í VR mælingu ársins þar sem kemur fram að upplifun starfsmanna er sú að konur og karlar fái sömu tækifæri.
Valdaójafnvægi í stjórnendastöðum í íslensku efnahagslífi
Ólöf Júlíusdóttir, doktor í félagsfræði frá Háskóla Íslands varði doktorsritgerð sína haustið 2019 en ritgerðin fjallaði um valdaójafnvægi í stjórnendastöðum í íslensku efnahagslífi. Í erindinu verður fjallað um nokkrar af þeim skýringum sem settar hafa verið fram um valdaójafnvægi kvenna og karla í áhrifastöðum og þær settar í samhengi við stöðuna hér á landi. Varpað verður ljósi á hvers vegna karlar eiga auðveldara með að halda völdum í efnahagslífinu á meðan að konum er síður treyst fyrir sömu völdum. Rannsóknin byggir bæði á spurningalista sem sendur var til æðstu stjórnenda í 249 fyrirtækjum á Íslandi og 61 viðtali við stjórnendur. Á Íslandi er hátt hlutfall kvenna á vinnumarkaði. Kynjakvótar hafa verið settir á í stjórnum fyrirtækja, jafnlaunastaðall, konur eru meira menntaðar en karlar en þó eru greinar eins og verkfræði og hagfræði þar sem hlutfall útskrifaðra karla er hærra. Það eru því mótsagnir í því hvers vegna svo fáar konur eru í stjórnum fyrirtækja.
Í viðtölunum sem Ólöf tók við æðstu stjórnendur í viðskiptalífinu mátti greina lífsseiga orðræðu þar sem konum er frekar kennt um að komast ekki til áhrifa í stað þess að benda t.d. á hvers vegna karlar séu svona þaulsetnir í sínum forstjórastólum. Það að konur: vilji síður vinna langan vinnudag, vilji ekki sleppa hendinni af heimilinu, hleypa ekki makanum í heimilisstörfin eins og undirbúning afmæla, í þvottinn og almenn heimilisverk eru ekki sannfærandi skýringar. Vafalaust þætti þeim ágætt að sleppa við þessi skylduverk. En þær hafa síður þennan stuðning sem karlar hafa heima fyrir því konur í stjórnendastöðum eiga frekar maka sem vinna lengri vinnudaga en þær sjálfar.
Mikið af kerfislægum hindrunum hafa verið unnar en varðandi vinnu á heimili er hægt að gera miklu betur. Þar þurfa karlarnir að taka sig á og vinnumarkaðurinn þarf að taka mið af því að karlar eru líka feður og eiga og vilja taka þátt í uppeldi barna sinna. Vísbendingar um þetta má sjá i tölum yfir karla sem taka fæðingarorlof. Konur eru frekar ráðnar í ábyrgðastöður þegar fyrirtæki ganga ekki vel og tók Ólöf dæmi eins og að Birna Einarsdóttir tók við Íslandsbanka eftir hrun árið 2008 og að í fyrsta sinn varð kona biskup Íslands eftir mikla ádeilu á kirkjuna. Varðandi tengslanet þá er sú umræða mjög áhugaverð því tengslanet karla og kvenna eru um margt ólík og virðast karlar hafa meira gagn af sínum netum en konur þar sem karlar ráða frekar karla, jafnvel þó það sé ómeðvitað. En Creditinfo greindi frá því á dögunum að konur eru líklegri til að taka við af konum. Karlar í stjórnendastöðum eru líklegri til að eiga maka sem vinnur færri stundir en hann sjálfur og þannig hafa þeir ákveðna forgjöf þegar kemur að sýnileika í stafi því makar karlanna taka meiri fjölskylduábyrgð og þeir fá þá meiri tíma fyrir sig. Þar sem við erum lagalega jöfn, hvers vegna er staðan þá ekki betri? Getur skýringin verið ástarkraftur kvenna. Þá að karlar græða meira á ást kvenna en öfugt. Praktískar hugsanir eru einnig ekki konum í hag ef þær snúast um það að ráða ekki konur til starfa sem eru á barnseignaaldri, gera skal ráð fyrir því að karlinn líkt og konan geti dottið út af vinnumarkaði ef hann er á barnseignaaldri. Þess vegna ætti þessi ,,praktíska hugsun“ að ráða ekki konu á barnseignaaldri að fjara út. Því hún er ekki lengur praktísk ef karlar detta líka út til jafns við konur. Konur hafa áhuga og eru vel menntaðar, hvað er þá til ráða? Auka gagnsæi í ráðningum, skoða hvernig umsækjendur eru metnir, hvað er hæfni og reynsla, skapa vinnumenningu sem hentar konum og körlum, markvissar jafnréttisstefnur svo eitthvað sé nefnt.
Jafnrétti er ákvörðun!
Hildur Árnadóttir, stjórnarmaður og talsmaður Jafnvægisvogar FKA sagði frá verkefni FKA,- Jafnvægisvoginni og fór yfir nýjustu tölur af mælaborði jafnréttismála. Hildur sagði að jafnrétti væri ákvörðun og Ísland er í 1.sæti hjá World Economic Forum. Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni og beitir jákvæðri hvatningu. Markmiðið er að íslenskt viðskiptalíf verði fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir. Jafnvægisvogin fær fyrirtæki til að skrifa undir viljayfirlýsingu og veitir viðurkenningar til fyrirtækja sem ná markmiðunum. En eitt af fyrstu verkefnum var að taka saman yfirlit og búa til mælaborð jafnréttis. Hjá fyrirtækjum í Kauphöll Íslands hefur einungis ein kona verið forstjóri á Íslandi. Kauphallarfyrirtækin uppfylla öll rétt kynjahlutfall í stjórn en ekki í framkvæmdarstjórn. Það eru sterk jákvæð tengsl á milli frammistöðu fyrirtækja og kynjajafnvægi í framkvæmdastjórn. Að lokum sagði Hildur að Melinda Gates væri búin að setja háa upphæð til þessa verkefnis.
Í lok erinda voru áhugaverðar umræður. Þar kom m.a. fram að mikilvægt væri fyrirtækin að hafa góðar jafnréttisstefnur með mælikvörðum sem væri fylgt eftir.