Fögnum Stjórnvísi!
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir samfylgdina á liðnum árum. Nú gengur í garð 30 ára afmælisár félagsins og ég er því fullviss um að við eigum magnað starfsár fyrir höndum.
Árið fer vel af stað. Dagskráin er þétt og fyrstu faghópafundirnir hafa verið vinsælir. Stjórn félagsins átti góðan kick-off fund með stjórnum faghópanna í vikunni og ég finn að það er mikill kraftur, gleði sem og nýsköpun í starfinu.
Í haust verða liðin 30 ár frá því að forveri félagsins, Gæðastjórnunarfélag Íslands var stofnað. Stjórnvísi spratt úr gæðaátaki“ á vegum Félags íslenskra iðnrekenda. Allar götur síðan hafa framsækni, fagmennska og fræðsla einkennt félagsstarfið. Félagið hefur þannig rutt brautina í fjöldamörgum málaflokkum og kynnt til leiks hvatningaverðlaun á borð við Gæðaverðlaunin, Íslensku ánægjuvogina og Stjórnunarverðlaunin. Vissulega hafa áherslur breyst frá því sem var í upphafi en kjarninn er hinn sami. Í nýlegri stefnumótun félagsins kemur fram að hlutverk Stjórnvísi sé að efla gæði stjórnunar á Íslandi og skapa hvetjandi vettvang fyrir gagnkvæma þekkingarmiðlun, umræður og tengslamyndun. Við ætlum að vera áfram leiðandi afl í þjóðfélagsumræðu um faglega stjórnun og leiðtogafærni.
Á afmælisárinu munum við að beina sjónum að stjórnandanum, leiðtoganum og kynna til leiks nýjungar í félagsstarfinu. Meðal þeirra verða þemahópar á vegum faghópanna en markmið þeirra verður að skapa einstakan umræðuvettvang meðal sérfræðinga og stjórnenda um sértæka málaflokka og daglegar áskoranir í starfi. Jafnframt ætlar félagið á haustmánuðum að hleypa af stokkunum fyrstu Stjórnendaleikunum sem haldnir hafa verið hérlendis og ekki má gleyma föstum liðum á borð við Íslensku ánægjuvogina, Haustráðstefnuna og Stjórnunarverðlaunin.
Nú er búið að opna fyrir tilnefningar Stjórnunarverðlaunanna 2016. Ég hvet þig því til að ígrunda hver í þínu nær- eða fjærumhverfi innan sem utan Stjórnvísi, hefur að þínu mati, skarað fram úr á sínu sviði? Hverjir eru stjórnendur ársins 2016? Innlegg þitt er mikils metið og það sem meira er að það er dásemd ein að fá tækifæri til að hrósa opinberlega þó það sé gert í nafnleynd. Segðu okkur því frá þessum stjórnanda eða stjórnendum og sendu okkur tilnefningar til dómnefndar eigi síðar en 3. febrúar.
Fögnum því sem framundan er, áfram Stjórnvísi!
Nótt Thorberg
Formaður stjórnar Stjórnvísi.
Sjá meira um Stjórnunarverðlaunin og tilnefningar hér:http://stjornvisi.is/stjornunarverdlaunin