Samfélagsábyrgð og móttækileiki starfsmanna við breytingum
Tregða við innleiðingu breytinga er þekkt vandamál, jafnvel þótt hægt sé að ganga út frá breytingum vísum, til að mynda innan skipulagseininga. Það að hrinda breytingum í framkvæmd er því áskorun fyrir stjórnendur, því breyta þarf gildandi fyrirtækjamenningu, stefnu, hegðun, venjum, gildismati og viðhorfum.
Tregða til breytinga er oft ekki að ástæðulausu, sér í lagi ef búast má hagræðingu, niðurskurði eða uppsögnum. Ótti við hið óþekkta og vantraust eru því nátengd tregðu til breytinga. Breytingar geta einnig verið af hinu góða, t.d. ef fyrirtæki eru í vexti, sækja inn á nýja markaði eða velja að axla samfélaglega ábyrgð.
Aukinn lagalegur, samfélagslegur og markaðslegur þrýstingur er á fyrirtæki um að þau axli samfélagslega ábyrgð - að rekstur þeirra hafi æðri tilgang en að þjóna hagsmunum fárra og að græða meira í dag en í gær.
Norræn doktorsrannsókn á starfsháttum vátryggingafélaga leiddi í ljós móttækileika starfsmanna við breytingum þegar fyrirtæki velja að axla samfélaglega ábyrgð. Rannsóknin leiddi í ljós mikilvægi forystu stjórnenda við skipulagsbreytingu af þessum toga, svo og jákvætt viðhorf starfsmanna til innleiðingar á slíkri stefnu. Innleiðing samfélagsábyrgðar hefur vissulega áhrif á störf starfsmanna sem taka þurfa upp nýja starfshætti, en í ljósi samfélagslegs ávinnings af breytingunum eru þeir tilbúnir að taka á sig aukna ábyrgð og leggja sitt að mörkum til að breytingarnar nái fram að ganga. Viðhorf gagnvart breytingunum einkennist því af jákvæðni, bjartsýni og innri hvötum, svo og jákvæðum tilfinningum eins og gleði og ánægju sem felst í því að styðja samfélagslega ábyrgar aðgerðir fyrirtækja.