Á dögunum afhjúpaði Team Spark S14, rafknúinn kappakstursbíl sem mun keppa í Formula Student á Silverstone í sumar. Að baki Team Spark standa 33 nemendur er stunda verfræðinám við Háskóla Íslands. Verkefnið er rekið innan veggja háskólans en að því koma á þriðja tug samstarfsaðila úr atvinnulífinu og samfélaginu.
Í ár koma nemendur úr véla-, iðnaðar-, rafmagns-, tölvu- og hugbúnaðarverkfræði að liðinu, auk nemenda úr vöruhönnun við LHÍ. Þessi samstillti hópur hefur nálgast verkefnið eins og um sprotafyrirtæki væri að ræða og hefur reynt á flesta þá lykilþætti sem ungir frumkvöðlar spreyta sig á við stofnun fyrirtækis.
Marel er meðal aðalbakhjarla Team Spark en fyrirtækið styður við nýsköpun og þekkingarmiðlun í verk-,raun- og iðngreinum á öllum skólastigum. Í okkar huga er unga kynslóðin lykillinn að nýsköpun framtíðarinnar.
Að undanförnu hafa starfsmenn Marel aðstoðað hópinn við hönnun rafkerfis og fjöðrunarbúnaðar bílsins. Við höfum veitt teyminu aðgang að sérfræðiþekkingu okkar og kynnt þeim fyrir vöruþróunar- og framleiðsluumhverfi fyrirtækisins. Þeir ungu hafa lært af þeim reynslumeiri og notið góðs af.
En á þeirri vegferð höfum við jafnframt kynnst þeim rafmagnaða krafti sem býr í ungu kynslóðinni. Framsýni, áræðni og sköpunargleði hafa einkennt Team Spark. Markmið hafa verið skýr frá upphafi og leiðin að þeim vörðuð vel. Afhjúpun bílsins var ein þessara varða og bar þess glöggt vitni hversu vel hefur tekist til við undirbúning og framkvæmd verkefnsins. Team Spark er fyrirmyndarverkefni og við sem höfum verið samferða hópnum erum þess fullviss að ef hann heldur áfram á þessari braut verða honum allir vegir færir. Það verður því spennandi að fylgjast með þessum ungu verkfræðingum sem von bráðar munu stíga sín fyrstu skref út í atvinnulífið.
Það eitt er víst að framtíðin er rafmögnuð!
Höfundur: Nótt Thorberg, Markaðsstjóri Marel á Íslandi og stjórnarmaður í Stjórnvísi.