Fimmtudaginn 27. apríl var sameiginlegur fundur ISO og gæðastjórnunarhópa Stjórnvísis haldinn í húsakynnum Háskólans í Reykjavík. Fundurinn hófst með aðalfundi þar sem Elín Ragnhildur Jónsdóttir, gæðastjóri Ríkiskaupa og formaður gæðastjórnunarhópsins, greindi frá starfi beggja hópa á árinu 2016 ásamt því að bera fram tillögu um sameiningu.
Fundurinn markaði tímamót hjá hvorum hópi fyrir sig þar sem fundarmenn samþykktu einróma sameiningu hópanna tveggja. Nýr hópur mun taka við verkefnum beggja hópa undir yfirskriftinni „Gæðastjórnun og ISO staðlar“ og fjalla um gæðastjórnun, ISO staðla og aðra staðla til stjórnunar en einnig faggilda vottun á grundvelli staðla.
Þá var óskað eftir aðilum í nýja stjórn og gáfu nokkri sig fram til stjórnarsetur. Þess má geta að hóparnir tveir voru með flesta þátttakendur á viðburðum Stjórnvísishópanna á árinu 2016 og gera má ráð fyrir því að bjartir tímar séu framundan í starfi nýs hóps.
Að loknum aðalfundarstörfum tók Kristjana Kristjánsdóttir gæðastjóri hjá Orkuveitunni við stjórn fundarins og kynnti til leiks fjóra framsögumenn sem fjölluðu um innri úttektir í ljósi breytinga sem urðu á ISO 9001 með útgáfuni árið 2015.
Sveinn V. Ólafsson, sérfræðingur hjá Jensen ráðgjöf, hóf umræðuna og fjallaði um almennar breytingar á staðlinum með sérstaka áherslu á aukin áhrif stjórnenda og áhættustjórnun. Þá miðluðu þrír gæðastjórar reynslu sinni af innri úttektum. Fyrstur tók til máls Bergþór Guðmundsson, gæðastjóri Norðuráls, þá Ína B. Hjálmarsdóttir, gæðastjóri Blóðbankans, og að lokum Guðrún E. Gunnarsdóttir, gæðastjóri 1912. Athyglisvert var að sjá að nálgun fyrirlesara á innri úttektir var ólík en allir voru þó að uppfylla kröfur þeirra staðla sem unnið er eftir. Fundarmenn voru sammála um að ólík nálgun gefur byr undir báða vængi og er hvatning til þess að nálgast viðfangsefnin út frá þörfum hvers fyrirtækis fyrir sig.
Að loknum erindum stýrði Kristjana Kjartansdóttir opnum umræðum þar sem fundarmenn lögðu sjálfir fram umræðuefnin. Umræður fóru fram á fjórum borðum og að þeim loknum var stutt samantekt þar sem þátttakendur lýstu ánægju sinni með fyrirkomulagið og efnistök dagsins.
Stjórnir beggja hópa, ISO hóps og Gæðastjórnunar, þakka fyrir ánægjulegt samstarf á árinu 2016 og óska nýrri sameiginlegri stjórn velferðar á nýju ári.
-----
Hér má sjá lýsingu á nýjum sameinuðum hópi en ný stjórn fær það verkefni að móta starfið ennfrekar.
Heiti: Gæðastjórnun og ISO staðlar.
Lýsing: Faghópur sem fjallar um gæðastjórnun, ISO staðla og aðra staðla til stjórnunar en einnig faggilda vottun á grundvelli staðla.
Markmið og leiðir:
Faghópurinn um gæðastjórnun og ISO staðla vinnur að því að efla þekkingu á gæðastjórnun, ISO stöðlum og öðrum tengdum stöðlum, svo og faggildri vottun.
Hópurinn stuðlar einnig að tengslamyndun og miðlun á reynslu þeirra sem starfa að málum tengdum stjórnun innan fyrirtækja eða stofnana.
Stjórn hópsins skipuleggur fundi þar sem fengnir eru fyrirlesarar sem hafa framsögu um málefni sem áhugavert er að ræða í tengslum við gæðastjórnun eða staðla. Einnig eru rædd þau viðfangefni sem koma upp og ábendingar um leiðir til að leysa þau. Hópurinn er samheldinn og innan hans ríkir trúnaður og traust.
Ennfremur skipuleggur stjórn hópsins ráðstefnur um ýmis málefni tengdum gæðastjórnun og stöðlum, gjarnan í samstarfi við aðra faghópa.
Faghópafundir eða ráðstefnur nýtast bæði byrjendum í heimi gæðastjórnunar og staðla og þeim sem lengra eru komnir allt eftir efni funda eða ráðstefna.
Orðskýringar
Stjórnunarkerfi, þ.m.t. gæðastjórnunarkerfi, felst í aðgerðum sem fyrirtæki eða skipulagsheild beitir til þess að greina markmið sín og ákvarða þá ferla og auðlindir sem þarf til þess að ná þeim árangri sem sóst er eftir. Hina ýmsu hluta stjórnunarkerfis skipulagsheildarinnar má sameina í eitt stjórnunarkerfi. Hér má nefna sem dæmi gæðastjórnunarkerfi ISO 9001 og ISO 14001 umhverfisstjórnunarkerfi.