Nýtt starfsár gengur nú í garð. Það stefnir í yfir 100 viðburði og í ár fögnum við 30 ára afmæli Stjórnvísi. Dagskráin er fjölbreytt og í takt við líðandi tíma. Það verður því eitthvað fyrir alla - líka þig! Ég hvet þig því til að kynna þér dagskrána vel og leiða hugann að því hvað Stjórnvísi geti gert fyrir þig?
Félagið er í sífelldri endurmörkun og ár hvert bjóðum við upp á nýjungar. Faghópar félagsins skipuleggja nú í auknum mæli sameiginlega viðburði. Á fimmtudaginn bjóða þrír faghópar saman upp á einn fyrsta viðburð vetrarins “Hver ertu? sem fjallar um endurmörkun Orkuveitunnar við sameiningu OR og Veitna ohf. Þverfagleg þekking, tengsl og miðlun er því orðin meiri innan félagsins er endurspeglar þróunina í atvinnulífinu sjálfu þar sem mörkin milli ólíkra fagsviða verða sífellt óljósari.
Nýlega litu þekkingarfundir dagsins ljós í félaginu. Þetta eru fundir þar sem félagsmönnum býðst að efla tengsl sín á milli og miðla í smærri hópum þekkingu sinni og reynslu um fyrirfram ákveðin málefni. Þetta nýja form hefur gefist afar vel og því má ætla að vinsældir þekkingarfunda muni fara ört vaxandi.
Já, Stjórnvísi er staðurinn fyrir þig. Vertu því með! Hér eflist þú, tekur virkan þátt í þekkingarmiðlun um málefni líðandi stundar og kynnist um leið öllu því frábæra fólki sem gerir félagið að þeim einstaka vettvangi sem Stjórnvísi er. Ef til vill verður þetta þinn stærsti fjársjóður til framtíðar.
Hlakka til að sjá þig!
Nótt Thorberg
Formaður Stjórnvísi