Forystu er algengt að skilgreina sem feril þar sem einstaklingur leiðir hóp að sameiginlegu
markmiði. Skiptar skoðanir eru um hvort forystuhæfileikar séu meðfæddir eða hvort unnt er
að ávinna þá með þjálfun. Meðfæddir hæfileikar eru mikilvægir en bæta má forystuhæfileika
með þjálfun. Allir hafa á einhvern hátt forystu með höndum, í fjölskyldum, vinahópum, í
rekstri fyrirtækja og stofnana og í kirkjulegu starfi. Árangur verkefna verður betri ef starfið
er í höndum öflugra leiðtoga. Mikið framboð er af námskeiðum um forystu og mannleg
samskipti. Af þeim námskeiðum sem ég hef sótt um ævina þykir mér tvö mest virði. Dale
Carnegie námskeið nr. 2 sem ég sótti 22 ára gamall og GLS (Global Leadership Summit)
ráðstefna sem ég sótti fyrir ári síðan.
Willow Creek samtökin (WCA) í Bandaríkjunum hófu GLS leiðtogaráðstefnuna í þeim
tilgangi að þjóna prestum í brautryðjendastarfi og leiðtogum almennt með því að veita
þeim góða fræðslu og aðstoð. Einkenni GLS er fagmennska og framúrskarandi fyrirlesarar
úr hinum ýmsu greinum atvinnulífsins. Ráðstefnurnar njóta vaxandi viðurkenningar
víða um heim. Sem dæmi um fyrirlesara fyrri ára eru Jack Welch, fyrrverandi forstjóri
General Electric, Bono söngvari U2, Colin Powell og Condoleezza Rice fyrrverandi
utanríkisráðherrar. GLS ráðstefnan er haldin árlega í ágúst í Chicago og er endurvarpað til
meira en 300 borga í Bandaríkjunum. Hún er svo endursýnd á haustin í meira en 350 borgum
í 105 löndum og fyrirlestrar þýddir á 50 tungumál. Talið er að allt að 200.000 manns víða um
heim sæki ráðstefnuna á þessu ári.
GLS ráðstefnan var fyrst haldin hér á landi fyrir 6 árum og að henni stendur hópur fólks úr
atvinnulífinu og frá mismunandi kirkjudeildum. Ráðstefnan verður nú haldin í Neskirkju 7.
og 8. nóvember n.k. Fyrirlesarar eru þjóðþekktir í Bandaríkjunum og fyrirlestrarnir sýndir á
tjaldi með íslenskum texta. Mörgum hópum hefur reynst vel að koma saman og ræða hvernig
nýta má efnið í eigin starfi. Ég sótti þessa ráðstefnu í fyrsta skipti á síðasta ári og hún kom
mér verulega á óvart en fyrirlestrarnir voru bæði fræðandi og skemmtilegir. Margir eiga
eingöngu von á trúarlegum fyrirlestrum en svo er ekki. Fyrirlesarar á 2014 ráðstefnunni
verða Bill Hybels stofnandi og prestur í WCA, Allen Kagina ríkisskattstjóri Úganda, Patrick
Lencioni metsöluhöfundur, stofnandi og forseti The Table Group, Joseph Grenny stofnandi
VitalSmarts, Jeff Immelt formaður stjórnar og forstjóri General Electric, Carly Fiorina
fyrrverandi framkvæmdastjóri HP, Don Flow framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Flow
Companies Inc., Wilfredo De Jesus safnaðarleiðtogi í New Life Covenant kirkju, Tyler
Perry kvikmyndagerðarmaður, leikari og Susan Cain metsöluhöfundur og fyrirlesari á TED
Íslenskt þjóðfélag þarfnast öflugra leiðtoga á öllum sviðum. Ég hvet alla sem vilja þróa
forystuhæfileika sína að sækja þessa ráðstefnu. Gæði fyrirlestranna mun koma þátttakendum
mjög á óvart. Upplýsingar um ráðstefnuna má finna á www.gls.is.