Gætirðu þrefaldað fjárfestinguna?
Að gera hlutina aftur og aftur með sama hætti og búast við nýrri útkomu - jaðrar við geðveiki! Þetta er haft eftir Albert Einstein. Það sem reynist flestum erfiðast þegar þeir læra eitthvað nýtt er að tileinka sér það. Taka út gömlu aðferðina og innleiða nýja. Við erum jafnvel líkleg til að prófa nýju aðferðina fyrst til að byrja með en smátt og smátt renna svo aftur í sama gamla farið og skilja á sama tíma ekkert í því af hverju við náum ekki þeim árangri sem við ætluðum okkur. Við lærum á námskeiðum aðferðir til breytinga en námskeið geta alla jafna ekki skilið eftir nema um 30% lærdóm þ.e. við tileinkum okkur 30% af því sem við lærðum og notum það hugsanlega (skv. ASTD). Með því að bæta coaching (markþjálfun) við í kjölfar eða með námskeiði má ná þessari lærdómsprósentu upp í allt að 89% (skv. ASTD) sem er þreföldun. Sum námskeið eru reyndar byggð upp með coaching svo sem ýmis Dale Carnegie námskeið. En af hverju þessi stóri munur? Við erum ekkert nema vaninn og allt að 90% af okkar daglegu athöfnum eru byggðar á vana. Að vita er ekki sama og að gera og í eðli okkar erum við raunverulega værukær og jafnvel löt. Við leggjum ekki á okkur nema við þurfum þess. Hvati til breytinga er sprottinn af tvennu. Til að forðast sársauka annarsvegar og til að upplifa ánægju hinsvegar. Það er ekki nóg að langa til að breyta við þurfum að hafa einhverja kveikju. Þessi kveikja getur einmitt verið coaching. Þú færð aðstoð við að tengja lærdóminn inn í veruleikann. Eins og einn viðskiptavinur minn sagði „að fá markþjálfun í kjölfar námskeiðs er eins og að fá einkaþjálfara í ræktinni -það er punkturinn yfir i-ið“.
Ragnheiður Aradóttir
Höfundur er stjórnendamarkþjálfi og Dale Carnegie þjálfari