Stjórnvísi óskar eftir tilnefningum til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2016. Verðlaunin eru veitt árlega stjórnendum fyrirtækja og stofnana sem þykja hafa skarað framúr á sínu sviði.
Þetta er í sjöunda sinn sem Stjórnunarverðlaunin verða veitt. Markmið verðlaunanna er að vekja athygli á framúrskarandi starfi stjórnenda, örva umræðu um faglega stjórnun og hvetja stjórnendur til að auka þekkingu sína, hæfni og færni sem stjórnendur. “Verðlaunin stuðla að aukinni fagmennsku á sviði stjórnunar og eru frábær vettvangur til að beina sjónum að því sem vel er gert í faglegri stjórnun hérlendis segir formaður Stjórnvísi Nótt Thorberg.
Í ár verður sú nýbreytni höfð við að hægt verður að tilnefna stjórnendur innan raða Stjórnvísi sem og utan. Stefnt er að því að veita verðlaun í flokki frumkvöðuls, millistjórnanda og yfirstjórnanda. Það er dómnefnd Stjórnunarverðlaunanna sem tekur við öllum tilnefningum og vinnur úr þeim. Dómnefnd skipar breiður hópur sérfræðinga og reynslumikilla stjórnenda.
Formaður dómnefndar í ár er Ásta Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Landspítala en auk hennar sitja í nefndinni:
Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Einkaleyfastofunnar.
Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Helgi Þór Ingason, prófessor og forstöðumaður MPM náms við Háskólann í Reykjavík.
Hjörleifur Pálsson, stjórnarmaður og ráðgjafi.
Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs.
Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups.
Tilnefnt er í gegnum heimasíðu Stjórnvísis. “Það er einfalt mál að tilnefna og við mat á tilnefningum eru viðmið og ferli skýr til að tryggt sé að verðlaunin byggi á faglegu mati. Í ár eru viðmiðin áreiðanleiki, nýsköpun & þróun, forysta og rekstrarumhverfi. Við hvetjum alla sem hafa áhuga á stjórnun að ígrunda hvort þeir þekki til stjórnanda sem verðskuldar tilnefningu segir Ásta Bjarnadóttir formaður dómnefndar.
Opið er fyrir tilnefningar til og með 3. febrúar. Dómnefnd mun birta lista yfir tilnefningar í lok febrúars á heimasíðu Stjórnvísi og líkt og fyrri ár verða verðlaunin afhent af forseta Íslands hr. Ólafi Ragnari Grímssynivið við hátíðlega athöfn í mars þegar að niðurstaða dómnefndar liggur fyrir.
http://stjornvisi.is/stjornunarverdlaunin
Handhafar Stjórnunarverðlaunanna 2015 voru Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og Ágústa Björg Bjarnadóttir, forstöðumaður mannauðs og rekstrar Sjóvár en meðal handhafa fyrri ára hafa verið m.a. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri bráðasviðs Landspítala og Ásbjörn Gíslason forstjóri Samskipa og fleiri.
Um Stjórnvísi
Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi og fagnar í haust 30 ára afmæli sínu. Félagið er ekki rekið í hagnaðarskyni og er hlutverk þess að efla gæði stjórnunar á Íslandi og skapa hvetjandi vettvang fyrir gagnkvæma þekkingarmiðlun, umræður og tengslamyndun. Aðildarfyrirtæki og stofnanir eru um 300 og virkir félagsmenn yfir 3000. Árlega stendur félagið fyrir öflugri dagskrá í formi viðburða og faghópafunda. Hægt er að lesa nánar um Stjórnvísi á heimasíðu félagsins stjornvisi.is.
Frekari upplýsingar veitir
Gunnhildur Anrardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi
Netang gunnhildur@stjornvisi.is sími: 5335666 og 8404990