Er fyrirtækið þitt eitt af hverju 10 sem nær árangri við innleiðingu breytinga?
Rannsóknir sýna að 90% fyrirtækja ná ekki þeim árangri sem þau ætla sér við innleiðingu breytinga. Það er ekki þar með sagt að fyrirtæki nái engum árangri en því miður er hann langt frá því að vera sá sem menn ætla sér þegar lagt er af stað.
En hvað er til ráða? Í rauninni er þetta ekkert flóknara en að undirbúa sig fyrir maraþon. Árangursrík innleiðing á breytingum kallar á markvissan undirbúning þar sem helstu lykilþættir breytingarferilsins eru greindir og nauðsynlegar aðgerðir skilgreindar.
Stefnuvitinn (e. The Implementation Compass) er verkfæri sem hjálpar fyrirtækjum í að undirbúa innleiðingu breytinga þannig að hægt sé að hámarka árangur breytinganna. Stefnuvitinn samanstendur af 8 þáttum: mannauður sem þarf að vera til staðar, framtíðarsýnin varðandi breytingarnar, upplýsingamiðlun, mælingar á árangri, nauðsynleg menning, skilgreining ferla, eftirfylgni og rýni á ferlinu.
Mikilvægt er að átta sig á stöðu mála áður en hafist er handa við innleiðingu breytinganna. Hver þáttur er metinn sérstaklega með því að leggja ákveðnar spurningar fyrir þá starfsmenn sem munu taka þátt í breytingarferlinu.
Segja má að Stefnuvitinn sé ígildi áttavita sem nauðsynlegur er til að rata í gegnum völundarhús breytinga. Við vitum öll að það er ákveðin leið inn í völundarhúsið og ákveðin leið út, en á vegferðinni leynast ýmsar hindranir eða áskoranir. Hins vegar eru þær yfirstíganlega ef vel er vandað til verks.
Á Strategíudeginum 21. maí n.k. mun Robin Speculand hugmyndasmiður Stefnuvitans halda erindi en sá dagur verður kynnt nánar þegar nær dregur.
Guðrún Ragnarsdóttir
Ráðgjafi hjá Strategíu