Vinnusýnishorn sem valaðferð
Öll fyrirtæki vilja velja hæfasta starfsfólkið en rannsóknir síðustu áratuga hafa sýnt með óyggjandi
hætti að brjóstvitið er vondur bandamaður í ráðningum og að til eru betri aðferðir.
Þeir sem hafa lært eitthvað um mannauðsmál vita að; stöðluð sérsniðin viðtöl, persónuleikamat,
getu- og hæfnipróf og verkefni spá fyrir um árangur í starfi.
Aukinn fjöldi mishæfra umsækjenda hefur aukið mikilvægi þess að vanda valið á framtíðar-
starfsmanninum á sama tíma og nauðsynlegt er að halda kostnaði við valið í lágmarki.
Lausnin hefur í auknu mæli verið að nota vinnusýnishorn. Vinnusýnishorn (work sample) er í raun lítið
próf sem byggir á vinnu líkri daglegri vinnu umsækjandans. Ýmist eru verkefni lögð fyrir í húsnæði
fyrirtækisins eða umsækjendur leysa verkefnið annarsstaðar. Aðferðin spáir vel fyrir um hæfnina til
að sinna tilteknu starfi og er ekki mjög tímafrek (fyrir fyrirtækið).
En aðferðin er ekki hættulaus og auðvelt að misstíga sig. Umsækjendur geta nýtt sér aðstoð annarra,
verið mislengi að klára verkefnið og fengið ólíkar leiðbeiningar. Allt atriði sem hægt er að hafa áhrif
á með einum eða öðrum hætti. Verst er þegar verkefnið sem lagt er fyrir er ekki réttmætt. Það
er, niðurstaða úr því spáir ekki fyrir um frammistöðu í þessu tiltekna starfi en hefur svipmót eða
yfirbragð slíks verkefnis. Önnur hætta er að þegar ekki liggur fyrir í upphafi með hvaða hætti verður
lagt mat á gæði verkefnisins - þá virkjast allar hættur huglægs mats.
Að framansögðu er ljóst að verkefni eru góð valaðferð en eins og með öll verkfæri er mikilvægt að
kunna að beita þeim rétt til að lenda ekki í því að skaða sjálfa sig eða aðra.
Gunnar Haugen
Framkvæmdastjóri ráðningasviðs Capacent