Á dögunum sótti ég fyrirlestur á Hilton Hotel í Reykjavík þar sem Mary Flynn, sérfræðingur hjá hinu afburðagóða þjónustu- og upplifunarfyrirtæki Walt Disney sat fyrir svörum. Mary Flynn var spurð að því hvað gerði Walt Disney að svo góðu fyrirtæki. Hún svaraði því til að hjá Walt Disney væri viðskiptavinurinn settur í 3. sæti. Þetta kom mér á óvart! Þetta er ekki það sem við erum vön að predika. En þegar betur var að gáð, og við nánari skýringu, þá small þetta allt saman.
Mary Flynn segir að fyrirtæki þurfi að vera með frábæra leiðtoga sem geri réttu hlutina á réttan hátt. Starfsmenn, sem fá hvatningu frá stjórnanda og frjálsræði í að taka frumkvæði, hafi mun meira sjálfsöryggi sem aftur leiðir til ánægju hjá starfsmönnum sem smitast beint til viðskiptavina.
Íslenska gámafélagið hefur verið valið fyrirtæki ársins tvö ár í röð, sem staðfestir það að starfsfólki okkar líður vel í vinnunni og er stolt og ánægt með starfsandann. Sá starfsandi sem mótast hefur hjá Íslenska gámafélaginu skapast m.a. af virkri þátttöku allra starfsmanna í ýmsum atburðum á vegum fyrirtækisins en flestir þeirra lúta að því að virkja maka og fjölskyldu starfsmanna. Við lifum eftir heimspeki fisksins (e. Fish philosphy) og gengur hugmyndafræðin út á að velja sér viðhorf, vera til staðar fyrir samstarfsmenn og viðskiptavini, gera daginn eftirminnilegan og að leika sér.
Ég gæti vaknað á morgnana og valið það að vera í fúlu „ruslaskapi“ en ég vel að hlakka til að hitta mína samstarfsmenn, ég hef gaman af því sem ég tekst á við hverju sinni, horfi á ný tækifæri og vinn úr ábendingum sem geta gert mig og mitt fyrirtæki enn betra. Ég stefni ávallt að því að vera framúrskarandi. Undanfarin ár höfum við lagt fyrir viðskiptavini okkar þjónustukönnun og er niðurstaðan ótvíræð og staðfestir einnig þau fræði að með ánægðum starfsmönnum skapast ánægja meðal viðskiptavina.
Agnes Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Íslenska gámafélagsins.
ERGO=>1. sterk forysta =>2. ánægðir starfsmenn =>3. ánægðir viðskiptavinir og töfrar gerast