Ég tel mig vera lánsama að vinna í fyrirtæki þar sem ég fæ og næ að vera ég sjálf. Ég þyki svolítið hávær, tala mikið, hlæja hátt og vera blátt áfram. Svo á ég það til að vera örlítið þrjósk - hver er það ekki? Þetta eru »eiginleikar« sem sjálfsagt stuða einhverja; sumir hafa gaman af og aðrir umbera.
Það er hins vegar hluti af fyrirtækjamenningu Íslenska gámafélagsins að við berum virðingu fyrir því gildi að við erum ólík. Við einbeitum okkur að styrkleikum okkar, gerum grín að veikleikum og höfum rétt á að vera við sjálf.
Fræðimenn rökræða enn um raunverulega skilgreiningu á fyrirtækjamenningu og merkingu hugtaksins. Hún byggist á fjölmörgum þáttum eins og gildum, viðhorfum, trú, samskiptamynstri og hegðun. Erfitt er að kortleggja hana vegna þess að hún er flókin. Það er heldur ekki hægt að tala um rétta eða ranga fyrirtækjamenningu; í rauninni er engin betri eða verri. Menninguna þarf að skoða út frá því hvernig fyrirtækið er og umhverfinu sem það starfar í.
Sterk og sveigjanleg fyrirtækjamenning er hins vegar oft talin skýringin á góðum langtímarekstri og hefur verið sýnt fram á að hún skilar t.d. minni starfsmannaveltu og aukinni framleiðni svo eitthvað sé nefnt. Þar sem fyrirtækjamenning er flókið fyrirbæri verða stjórnendur að vera meðvitaðir um að menningin verður til í samskiptum manna og aðstæðna á löngum tíma og því ekki raunhæft að ætlast til skjótra breytinga.
Ég hvet alla stjórnendur til að íhuga þá menningu, sem er í fyrirtækjum þeirra, og reyna að kortleggja hana þrátt fyrir flækjustig. Það eykur skilning á sjálfu fyrirtækinu og kemur sér vel við ýmis tækifæri s.s. í ráðningum og þjálfun nýrra starfsmanna