Vefráðstefna þjónustu- og markaðsstjórnunarhóps Stjórnvísi, sem haldin var í húsnæði Arion banka í morgun, tókst afskaplega vel og var vel sótt. Jón G. Hauksson, formaður stjórnar Stjórnvísi, setti ráðstefnuna formlega en Ásta Malmquist, formaður stjórnar þjónustuhópsins, stýrði ráðstefnunni og umræðum með miklum glæsibrag.
Fjallað var um vefinn og þau tækifæri sem hann gefur fyrirtækjum varðandi stjórnun og markaðssetningu. Þema ráðstefnunnar var: Vefurinn allt um kring?
Maríanna Friðjónsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Green Heels Production, nefni erindi sitt: Að vera eða alls ekki að vera til.
Maríanna er kunn sem sjónvarpskona til fjörutíu ára. Hún nálgaðist viðfangsefnið skemmtilega og færði rök fyrir því hversu áhrifaríkt Netið og Fésbókin væri í markaðssókn fyrirtækja - en lagði mikla áherslu á hversu vel þyrfti að vanda til verka þótt miðillinn væri annar en hinir hefðbundnu.
Vilhjálmur Alvar Halldórsson, forstöðumaður netviðskipta Arion banka, ræddi um innra net Arion banka og hvernig almennir starfsmenn og stjórnendur notuðu það til að hafa upplýsingaflæðið innan bankans sem mest og árangursríkast. Vilhjálmur sagði að breytingar væru í vændum með innra netið - ekki síst útlit þess sem og aðgengi og aðkomu starfsmanna að því.
Atli Viðar Þorsteinsson, listrænn framleiðandi fyrirtækisins CLARA, ræddi um vaktkerfi Clöru sem nýtur sívaxandi vinsælda. Þetta er ekta sprotafyrirtæki sem byrjaði fyrir þremur árum og hefur undið upp á sig. Vaktkerfið vaktar samkvæmt beiðni alla umfjöllun um fyrirtæki og einstaklinga í fjölmiðlum og á Netinu - kerfið nær þó enn ekki til ljósvakamiðla.
Guðjón Elmar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Emoll sem er hluti af Vefpressunni og rekur m.a. vefina butik.is, mona.is og rafko.is fór yfir markaðssetningu og sölu á netinu og vísaði m.a. í kannanir sem hafa verið gerðar í Bretlandi en þar er vefverslun í miklum blóma og tíunda hver sala fer fram á Netinu. Guðjón spáði mikilli aukningu í vefverslun á Íslandi næstu árin.
Árni Þór Árnason, stofnandi og framkvæmdastjóri Hópakaup.is, var með síðasta erindið á ráðstefnunni sem nefndist Hópkaup - í krafti fjöldans. Þetta fyrirtæki var stofnað snemma á árinu og hefur verið talsvert í fréttum. Hugmyndin gengur út á sérstakt net-tilboð fyrirtækja á vef Hópakaupa gegn því að Hópakaup komi með lágmarks kaupendahóp. Tilboðin standa ævinlega í ákveðinn, stuttan tíma.
Fyllsta ástæða er til að hrósa þjónustu- og markaðsstjórnunarhópnum fyrir góða ráðstefnu og glæsilegan undirbúning. Sömuleiðis ber að þakka Arion banka fyrir að hýsa ráðstefnuna og bjóða upp á morgunkaffi og með því.