Að öllu jöfnu ætti áhersla á samfélagsábyrgð fyrirtækja að leiða til góðs, en það er þó ekki alltaf raunin. Af þeim sökum hafa orðið til hugtök eins og grænþvottur (e. greenwashing) og hugtakið „nicewashing“ sem gæti kallast ímyndarþvottur á íslensku. Fyrrnefnda hugtakið snýr að umhverfisþáttum, en það síðara að samfélagslegum og siðrænum þáttum. Í báðum tilvikum er lögð meiri áhersla á að auglýsa upp aðgerðir, fremur en á raunverulegar aðgerðir, til að mynda með því að þykjast vera góður, grænn, siðrænn eða sjálfbær. Fyrirtæki ganga stundum langt í því að villa um fyrir neytendum með því að ýkja jákvæð áhrif, eða draga úr neikvæðum áhrifum af starfsvenjum, vörum eða þjónustu, eða með því að brjóta vísvitandi starfsleyfi í þeim tilgangi að hagnast á kostnað neytenda eða almennings. Með réttu er hugtakið hvítþvottur, þ.e. þegar fyrirtæki reyna að hreinsa sig af áburði um skaðlega eða saknæma starfshætti eftir að upp um þau hefur komist, af svipuðum meiði. Það hefur m.a. verið notað í tengslum við peningaþvætti, þ.e. þegar slóð illa fengins fjár.
Áhrif af starfsemi sem tengist umræddum þvottahugtökum eru misskaðleg, en skaðinn getur t.d. verið fjárhagslegur, umhverfislegur eða heilsufarslegur. Besta forvörnin felst í þekkingu á því hvað samfélagsábyrgð felur í sér, mælanlegum markmiðum, gagnsæi (e. transparency) og aðhaldi almennings. Mælanleg markmið og gagnsæi er til ávinnings fyrir þau fyrirtæki sem raunverulega axla samfélagsábyrgð, því séu öll spilin á borðinu má draga úr neikvæðum smitunaráhrifum þegar upp kemst um úlfana í sauðagæru samfélagsábyrgðar.
Höfundur: Lára Jóhannsdóttir, höfundur er nýdoktor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og stjórnarmaður í LSBÍ.